140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:26]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina nokkrum fyrirspurnum til hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í sambandi við hans ræðu. Í fyrsta lagi segir hann að verið sé að kollvarpa kerfinu. Það var aflamarkskerfi þegar hann var að lýsa því að það hefði verið baggi á samfélaginu og það er aflamarkskerfi enn þá. Það er kvótakerfi í þessum tillögum. Er þingmaðurinn að biðja um að það verði breytt eitthvað frá því?

Í öðru lagi þegar ákveðið er núna að ákveða aflamarkið sem aflahlutdeild til 20 ára, hvernig getur það aukið óvissu frá því að ákveða árlega hvert aflamarkið er?

Í þriðja lagi hefur kerfið verið tvískipt, þ.e. skipt á milli aflahlutdeilda og bótaívilnana, strandveiða og annarra þátta. Það er í tillögum Framsóknarflokksins. Hvernig vill hann hafa þá skiptingu öðruvísi en hér er borið fram?

Í fjórða lagi: Er hv. þingmaður að segja okkur það með umræðunni um skuldsett fyrirtæki að það sé skynsamlegra að við borgum vexti til bankanna en að borga veiðileyfagjald fyrir afnotaréttinn sem fer þá beint til þjóðarinnar?

Því miður leyfir tíminn ekki frekari spurningar en ég fæ vonandi tækifæri til að koma betur inn í umræðuna síðar.