140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er greinilega viðkvæmt, sérstaklega varðandi nefnd hv. þingmanns. Hann sakar mig um (Gripið fram í.) lygi fyrir að hafa haldið því fram að forsætisráðherra hafi ekki viljað þá sátt sem þar náðist. Það liggur fyrir í yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra að hún var ekki sátt við þær niðurstöður sem stefndi í í þeirri nefnd. Ef menn trúa mér ekki í því þá ættu þeir bara að hlusta á fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi misst af ræðu hans áðan.

Hvað var hæstv. ráðherra að tala áðan um að nú væri aflaúthlutun ákveðin til 20 ára? Voru þetta mismæli hjá hæstv. ráðherra eða telur hann að í nýja kerfinu verði ákveðið 20 ár fram í tímann hvað verður veitt á hverju ári? (Gripið fram í.) Þetta var algerlega óskiljanleg athugasemd hjá hæstv. ráðherra.

Svo að lokum varðandi stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hún vilji hagkvæmni, skapa störf og góð rekstrarskilyrði. Það efast enginn um það. Það muna allir eftir yfirlýsingunum um velferðarbrúna, um skjaldborgina um heimilin. Það efast enginn um að þessi ríkisstjórn geti gefið yfirlýsingar (Forseti hringir.) en að standa við þær er eitthvað annað.