140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeim stuttu andsvörum sem ég á við hv. þingmann, formann Framsóknarflokksins, kom fram í upptalningu minni að við erum sammála, heyrist mér, um þau atriði sem ég taldi upp. Ég get haldið áfram að telja upp. Við getum sagt hinn pottinn eða hinn flokkinn, flokk 2, þar sem veiðileyfum verður úthlutað til ýmissa byggðatengdra aðgerða eins og til dæmis að stuðla að nýsköpun og nýliðun, að samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi sá pottur með tíð og tíma og stefnt sé að því að sá pottur geti orðið allt að 15%, veiðigjaldið eða auðlindarentan verði látin renna til nýsköpunar rannsókna- og markaðstengingar innan greinarinnar sjálfrar, til landsvæða o.s.frv. (Gripið fram í: Ertu að lesa upp úr …?)

Virðulegi forseti. Já, ég er nefnilega að lesa upp stefnu Framsóknarflokksins, það er alveg hárrétt, og ég get tekið undir mestallt sem þar kemur fram. Ég og hv. þingmaður vorum sammála um fyrri hlutann og ég hygg að við verðum líka sammála um seinni hlutann sem ég hef hér gert að umtalsefni.