140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða mín snerist nákvæmlega um þann misskilning sem kemur fram í orðum þingmannsins. 60 milljarðarnir sem um er talað eru ekki auðlindarenta. Þeir eru ekki umframhagnaður eða annað slíkt, ekki hagnaður eins og hæstv. forsætisráðherra hefur talað um, ekki umframhagnaður eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur talað um. 60 milljarðarnir eru framlegðin í útgerð, EBITDA, þ.e. eftir að búið er að borga launin, olíuna og veiðarfærin þarf að borga fjármagnskostnaðinn, afskriftirnar, hagnaðinn og annað slíkt og í það fer EBITDA.

Síðan er eitthvað sem við getum kallað eðlilegan hagnað eða hagnað sem við sjáum, við gætum sagt 10% af greininni sem gætu verið einir 10 milljarðar. Það sem er umfram það gæti verið endurspeglun á þeim umframhagnaði eða auðlindarentu sem fellur í skaut útgerðarinnar. Það gætu verið um 15–20 milljarðar núna þegar aldrei hefur gengið betur. En ef upphæðin er 15 milljarðar eru 10 milljarðar farnir til sjómanna í auðlindarentu, nákvæmlega eins og ég rakti áðan. Hv. þingmaður getur lesið í greinargerð sem fylgir frumvarpinu að það er óumdeilt að auðlindarentan vegna hlutaskiptakerfisins fellur sjómönnunum líka í skaut. Þess vegna sjáum við skipstjóra á uppsjávarskipunum með 50 og 60 millj. kr. í laun á síðasta ári, og hásetahlut upp á 25 milljónir. Það er (Forseti hringir.) vegna þess að svo mikil auðlindarenta fellur þeim núna í skaut.