140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:04]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að ástæða sé til að ræða þessar tölur og átta sig betur á þeim. Ég get ekki séð að þær breytingar á því kerfi sem lagðar er fram með þessu kvótafrumvarpi hafi nokkur áhrif á það til mynda hver hlutur og staða sjómanna ætti að vera í þessu máli. En spurningin snýst auðvitað um það hvað sé eðlilegt og réttlátt að renni til samfélagsins af þeirri stórmiklu framlegð af fiskveiðum, útgerð og vinnslu sem við sjáum tölur um í dag.

Mér fannst dálítið athyglisvert koma fram í ræðu hv. þingmanns áðan, en hann talaði á þeim nótum að afraksturinn af leigupottunum sem yrðu á hendi hins opinbera í staðinn fyrir að kvótaeigendur hefðu þá á sinni hendi væri peningar sem rynnu í gin ljónsins, sem væri bara eitt það versta sem menn gætu hugsað sér. Í hvaða gin hafa þær runnið hingað til, þær leigugreiðslur sem menn hafa þurft sem leiguliðar að greiða fyrir kvótann? Skiluðu þær sér til samfélagsins með þeim hætti sem þær mundu gera ef þetta væri á samfélagslegri hendi og við fengjum arðinn til að reka sjúkrahús, skóla og þjónustu sem okkur veitir ekkert af að hafa tekjur til?