140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessu er auðsvarað. Ég hef bara eina lausn — ég hef ekki séð aðrar, það getur verið að til séu aðrar — og það er sú lausn sem felst í frumvarpi mínu. Það er mjög einfalt, þar fær þjóðin sín kíló, hver einasti íbúi. Hann má veiða það kíló ef hann vill og hann má sleppa því að veiða það ef hann vill. Hann er frjáls maður. Þetta er einstaklingshyggja af hæstu gráðu. Hann má selja það, hann má veðsetja það, hann má arfleiða það, hann má gefa það og hann má sleppa því að veiða það. Þetta er lausnin, álít ég.

Mér finnst nefnilega að hugtakið sameign þjóðar á fiskveiðiauðlind — það er tvennt eða þrennt eiginlega sem er óljóst. Hvað er sameign þjóðar, hvers lags fyrirbæri er það eiginlega? Getur þjóðin farið að veiða? Nei. Getur hún veitt einn þorsk? Nei. Sameignin er algerlega óljós. Og hvað er fiskveiðiauðlind eiginlega? Það verður ekki auðlind fyrr en farið er að takmarka í hana. Hún varð ekki auðlind fyrr en aðgangur var takmarkaður að fiskveiðunum, þá varð hún auðlind. Áður gat hver og einn veitt og það var bara veitt og veitt og það stefndi í að menn kláruðu auðlindina, þeir mundu klára alla fiskveiðistofnana. Með takmörkuninni sem ríkið stóð fyrir mynduðust verðmæti. Þá fyrst mynduðust verðmæti og það eru þau verðmæti sem menn eru að rífast um, þ.e. eignarhaldið númer eitt, tvö og þrjú. Ekki framsalið endilega því framsalið er afleiðing af deilunum um eignarhaldið. Um leið og eignarhaldið liggur fyrir er hægt að hafa framsalið algerlega frjálst. Ég geri ráð fyrir að framsalið sé algerlega óbundið bátum, útgerð eða öðru. Menn eiga bara ákveðna hlutdeild í aflahlutdeild þjóðarinnar í heild sinni.

Ég sé ekki nema eina lausn á þessu. Það getur vel verið að þær séu fleiri en ég hef ekki séð þær enn þá.