140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um þessa spurningu, ég lít svo á að hv. þingmaður sé ekki síður að vísa í hitt frumvarpið sem er síðar á dagskrá. Ljóst má vera að það mun hafa talsvert meiri áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og þar með á stöðu bankanna en þetta frumvarp sem við ræðum núna. Þau áhrif sem hér hefur verið vísað til, að skerðingarnar hafi áhrif á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja, má telja óveruleg miðað við áhrifin sem geta orðið af veiðigjöldunum. Ég minni á að kannski er eðlilegra að þessi umræða eigi sér stað þegar við ræðum frumvarpið um veiðigjöld.

Þessu frumvarpi fylgir úttekt eftir Daða Má Kristófersson um áhrif frumvarpsins á útgerðarfyrirtæki. Þar er ekki sérstaklega farið út í stöðu bankanna en ég á von á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra, eða sú sem hér stendur ef svo fer að þau mál fari í umræðu meðan ég gegni fyrir hann, fari þá nánar í þau mál. Hins vegar liggur líka fyrir að það er veruleg óvissa í þessu máli. Af því að hv. þingmaður segist ekki trúa öðru en að ég geti varpað ljósi á þetta allt saman ætla ég að segja að ég get það ekki. Það er til að mynda mikil óvissa um skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja eftir síðari gengislánadóminn svo dæmi sé tekið þannig að óvissan um stöðuna núna er umtalsverð. Við höfum hins vegar talsvert af gögnum sem ég held að sé rétt að við ræðum þegar við ræðum frumvarpið um veiðigjöldin. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er eðlilegt að bæði hv. atvinnuveganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir þessi mál því að allt skiptir þetta máli.

Hv. þingmaður nefndi heimildir til handa ráðherra. Sú gagnrýni kom á síðasta sjávarútvegsfrumvarp að þar hefði ráðherra of rúmar heimildir til reglugerðarsetningar og hér eru talsvert afmarkaðri reglugerðarheimildir en í því frumvarpi. Ég minni á að þegar kemur að meðferð og ráðstöfun aflaheimilda til flokks 2 sem hv. þingmaður nefndi áðan er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra leggi ekki aðeins fram skýrslu um meðferð og ráðstöfun aflaheimilda heldur þingsályktunartillögu um hlutfallslega skiptingu aflamarks þannig að þingið mun að sjálfsögðu (Forseti hringir.) koma að þeirri ákvörðun. Ég vil aðeins nefna það inn í þá umræðu sem hv. þingmaður var með um heimildir ráðherra.