140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið ágætur stundum í pollýönnuleik, það er oft hollt fyrir sálina, en ég get ekki látið eins og það sé bara eitt frumvarp þegar það liggur alveg fyrir að það á að keyra tvö í gegn. Ég get það ekki. (Menntmrh.: Við fengum ekki að ræða þau saman. Það er …)

Virðulegi forseti. Við bara getum ekki látið þannig. Ég vek athygli á því að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd komu fulltrúar Landsbankans og sögðu frá því að Landsbankinn mundi ekki þola fyrningarleiðina, sögðu það fyrir nokkrum árum. (JónG: 48% fyrirtækja á hausinn.) Það er alveg rétt að það er búið að taka það út að þetta muni setja fullt af fyrirtækjum á hausinn og það hefur verið umræða um það. Hv. þm. Jón Gunnarsson segir 48%. Hvað þýðir það? Það hefur gríðarleg áhrif á bankana, þar af leiðandi ríkisbankana. Ég veit ekki hvort búið er að skilgreina bankana sem auðlind, það getur verið, en þeir eru í það minnsta í ríkiseign. Ríkiseign er núna mjög mikið kölluð þjóðareign. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að kröfuhafarnir eru búnir að sjá við ríkisstjórninni hvað þetta varðar. Þeir eru búnir að ganga þannig frá samningum að ef þetta hefur þau áhrif á efnahag Landsbankans, sem allir fullyrða sem hafa skoðað, mega skattgreiðendur borga. Þá mega og eiga skattgreiðendur að borga. Það er fullkomið ábyrgðarleysi af þessari hæstv. ríkisstjórn að koma fram með frumvarp og vera ekki búin að taka þetta mál út. Það er fullkomið ábyrgðarleysi af stjórn þingsins að ætlast til þess að við klárum þessa umræðu án þess að vita hvaða áhrif þetta hefur á ríkisbankann. Þetta eru ekki smáaurar, virðulegi forseti, þetta eru stórar upphæðir og það er alveg ljóst hvar þær lenda. Þær lenda á skattgreiðendum.