140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:26]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á mínum yngri árum vorum við um tíma þrír bræður af sama heimilinu á sjó ásamt stjúpföður mínum, móðir mín vann í fiski og systir líka þannig að hv. þingmaður þarf ekkert að segja mér hvernig umræða um sjávarútvegsmál snertir fólk sem starfar við sjávarútveg. (Gripið fram í.) Það horfir auðvitað hver á þetta sínum augum og það er langt í frá að hv. þingmaður geti sett sig upp í ræðustól á Alþingi sem einhvers konar talsmann þessa hóps.

Það er bara það sem ég vildi segja, það skiptir máli hvernig rætt er um þessi mál. Það er rangt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að þingmenn Samfylkingarinnar hefðu verið að ráðast að fólki sem starfaði við sjávarútveg. Það er alrangt og því ber að mótmæla, það vildi ég gera og það geri ég hér. Auðvitað veit hv. þingmaður að það er ekki svo og hann á að sjá sóma sinn í að draga þessi ummæli sín til baka og halda síðan áfram efnislegri umræðu um það frumvarp sem er hér til umræðu.