140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar verið er að fjalla um að setja veiðileyfagjald upp á 20 milljarða á landsbyggðina, flytja það inn í ríkissjóð í stað þess að eyrnamerkja þá upphæð — við skulum láta liggja á milli hluta upphæðina á veiðileyfagjaldinu og hvernig hún er fundin — til þróunarverkefna í sjávarútvegi, til sveitarfélaga og til landshlutasamtaka sveitarfélaga eftir atvikum er það hrein og klár árás á það fólk sem býr í sjávarbyggðum allt í kringum landið. Einungis er tekinn lítill hluti, það sem fellur undir pott 2, og honum skipt með þessum hætti. Hv. þingmaður veit að þetta er rétt því að þetta er kjarninn í frumvarpinu. Þetta er það sem kom fram í máli fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hér í dag, þ.e. að hann gæti ekki stutt þetta frumvarp vegna þess að það væri landsbyggðarskattur þegar verið væri að taka 20 milljarða, eins og þetta er í dag, og flytja þá í ríkissjóð í staðinn fyrir að eyrnamerkja peninginn einstökum byggðarlögum.

Hvað er það annað en árás á það fólk sem starfar í þessum byggðarlögum, árás á þau samfélög sem hafa einmitt mátt þola fólksfækkun og annað því um líkt? Það er þetta sem ég á við og það er þetta sem við erum að tala um. Þetta er lykilatriði þegar menn tjá sig um þessi mál, eins og hv. þingmaður og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar, og eru að reyna að draga upp þá mynd að þetta sé gert í þeim tilgangi að styrkja og efla byggð í landinu. Það er það ekki, það eru orðin tóm.