140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Þetta er efnismikið mál og það vekur athygli að afskaplega lítið er um útreikninga og fylgigögn og úttektir á því hvaða áhrif málið hefur á hina og þessa þætti í samfélagi okkar, þar á meðal bankana, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi um fyrr í kvöld í ræðu sinni. Hann fór í raun fram á að efnahags- og viðskiptanefnd mundi fjalla um þessa hlið málsins og fá upplýsingar um hana á fundi í nefndinni. Það verður vonandi gert og vonandi koma einhverjar upplýsingar út úr því.

Mig langar að ræða aðeins um 19. gr. og velta upp nokkrum spurningum varðandi hana, þ.e. þann lið hennar sem varðar úthlutun þeirra tekna sem aflað er við ráðstöfun aflamarks úr flokki 2, samkvæmt greininni. Þær eiga að renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Úr þeim sjóði er ráðstafað samkvæmt reglum sem ráðherra setur og ríkið skal njóta 40% tekna, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%.

Þarna erum við að búa til, að því er mér sýnist, sjóð sem ekki er útskýrt frekar, hvorki í frumvarpinu né í greinargerðinni sem fylgir því, hvernig eigi að fara með. Það er svolítið sérkennilegt í ljósi þess að við höfum á undanförnum árum og sérstaklega á undanförnum missirum talað mjög mikið fyrir því að allt skuli vera uppi á borðum og allt eftir föstu formi o.s.frv. Ég tel mjög athyglisvert að setja eigi stórar fjárhæðir í sjóð af þessu tagi. Þess vegna var ekki undarlegt að sjá í umsögn fjármálaráðuneytisins fjallað akkúrat um þetta atriði og gerðar athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Hægt er að lesa sér til um þær athugasemdir í fylgiskjali II með þessu frumvarpi á bls. 59–60 en ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að fara aðeins yfir þær.

Fjallað er um að frumvarpið hafi þær afleiðingar að leiguverð aflamarks lækki frá því nú er og leigan verði þess vegna um 3–3,5 milljarðar. Það er þá sá pottur sem verið er að tala um að tekjurnar sem aflað er við ráðstöfun aflamarks úr flokki 2 fari úr í þennan sjóð í vörslu ráðherra. Svo á ráðherrann sjálfur að setja reglur um hvernig þessu skuli úthlutað og það eina sem sagt er um þetta í frumvarpinu er þessi skipting í prósentum sem ég las upp áðan.

Síðan kemur fram í umsögn ráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Ákvæðið er opið og óútfært og í bráðabirgðaákvæði VI er mælt fyrir um skipun nefndar með aðild samtaka sveitarfélaga og hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem geri tillögur um reglur um ráðstöfun tekna. Í þessu sambandi bendir fjármálaráðuneytið á að mörkun ríkistekna með ráðstöfun framlaga til tiltekinna verkefna, í þessu tilviki til sjóðs í vörslu ráðherra, bindur hendur fjárveitingavaldsins og skerðir þar með fjárstjórnarvald Alþingis sem kveðið er á um í stjórnarskránni.“

Það skerðir fjárstjórnarvald Alþingis. Þessum punkti tel ég að við þurfum að veita svolitla athygli í umræðunni og að nefndin þurfi að fara vel yfir í umfjöllun sinni. Ég vil benda nefndarmönnum, sem hér sitja nokkrir, á þetta.

Síðan er tekið fram í umsögninni:

„Mörkun teknanna mun leiða til þess að framlög til sjóðsins breytast sjálfkrafa eftir því hver þróunin verður í tekjum af leigupotti ríkisins og að breyta verður fjárheimildum sjóðsins eftir á í lokafjárlögum á grundvelli endanlegs uppgjörs teknanna.“

Hér er verið að fara svolítið aftur til fortíðar. Reynt hefur verið að stramma niður þær reglur sem við ætlum okkur að fylgja varðandi fjármál ríkisins og þess vegna er sérkennilegt að sjá framkvæmd af þessu tagi dúkka upp árið 2012 í þessu frumvarpi, sem flestallir sem hafa talað hér í kvöld telja gríðarlega mikilvægt. Það er mjög mikilvægt enda erum við að tala um helstu atvinnugrein þjóðarinnar og okkar helstu auðlind. Við Íslendingar erum afskaplega rík þjóð, við eigum um það bil 2% af öllum fiskveiðiréttindum í heiminum og það er ekkert lítið þar sem við erum nú bara um 300 þúsund talsins. Við þurfum að átta okkur á því að við berum gríðarlega ábyrgð og þurfum að umgangast stofnana okkar af virðingu og jafnframt að umgangast þessa atvinnugrein og þá sem hafa atvinnu sína og lífsviðurværi af henni af virðingu. Þess vegna er leiðinlegt, frú forseti, að sjá að horfið hefur verið frá þeirri sáttaleið sem menn voru þó búnir að koma sér saman um að fara. Það er leiðinlegt að sjá að það var ekki gert. Þess vegna er málið komið í hálfgerðan hnút og við höfum heyrt mjög andstæðar skoðanir í umræðunni í dag. Hún hefur oft og tíðum verið frekar heiftúðug eins og við kannski sáum hér rétt áðan.

Frú forseti. Mig langar aðeins að ræða um eitt mikilvægt atriði. Hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem er með fleiri ráðuneyti á sinni könnu og er ekki hér í dag, hefur stundum beint heilræðum til okkar þingmanna. Sumir mundu frekar segja að hann væri að reyna að ala okkur svolítið upp. Ég man eftir því, væntanlega á mínu fyrsta starfsþingi, þegar hann minnti þingheim á að menn þyrftu að muna að orðið lifir lengur en einn dag í einu og það sem maður segði þyrfti maður að vera tilbúinn til að standa við einhvern tíma seinna.

Í því sambandi langar mig að vitna í ræðu sem sami maður, Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, flutti á fundi sem sjávarútvegsráðuneytið hélt á Akureyri þar sem rætt var um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt. Umfjöllun um þessa ræðu er í Ægi árið 1997. Í þeirri frétt, sem er unnin upp úr þessari ræðu þáverandi formanns sjávarútvegsnefndar Alþingis, kemur fram sú skoðun þingmannsins Steingríms J. Sigfússonar á þeim tíma að hann teldi veiðileyfagjaldið óskynsamlegan og óréttlátan skattstofn.

Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að vitna í þessa frétt sem unnin er beint upp úr þessari ræðu:

„Málið er ekki flóknara en þetta og hættum þessu rugli. Í mínum huga er það svo morgunljóst að starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðanna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum slóðum. Þannig hefur þetta alltaf verið og mun alltaf verða.“

Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að veiðileyfagjald væri óskynsamlegur skattstofn og óréttlátur. Þetta er mjög athyglisvert. Að sjálfsögðu er nokkuð liðið frá því að þetta var en þetta er grundvallarinntakið í hugmyndafræðinni um auðlindaskatt sem hefur að mínu viti í raun ekkert breyst þrátt fyrir að liðin séu nokkur ár. Það er því leitt, frú forseti, að hæstv. ráðherra getur sjálfur ekki verið hérna í dag til að fara aðeins yfir það með okkur hvers vegna skoðanir hans hvað þetta varðar hafa greinilega gerbreyst. Auðvitað er öllum frjálst að skipta um skoðun en það væri einfaldlega heillavænlegt fyrir umræðuna að fara yfir það og fá útskýringar á því hvers vegna skoðanir ráðherrans, sem voru þetta sterkar á sínum tíma, hafa breyst svona mikið.

Í erindi sínu sagði þingmaðurinn um veiðileyfagjaldið að ekki þyrfti að eyða tíma í að rífast um skýrslu hagfræðinga til að sjá að með greiðslu auðlindagjalds færi hagnaður eða eigið fé sjávarútvegsfyrirtækjanna út úr þeim og út úr byggðarlögunum. Þar með væri þetta fjármagn ekki til staðar til uppbyggingar og fjárfestingar heima fyrir.

Jafnframt kemur fram í þessari grein um ræðu þingmannsins, með leyfi forseta:

„Tilhneigingu stjórnvalda til að hækka skattstofna sem einu sinni eru komnir á sagði Steingrímur vera vel þekkta og sú hætta yrði fyrir hendi varðandi veiðileyfagjaldið. Þá yrði greinin síðri fjárfestingarkostur fyrir fjárfesta.“

Eru þetta ekki allt athugasemdir sem fram hafa komið í umræðunni í dag? Eru þetta ekki þeir punktar sem þeir sem styðja ekki þetta frumvarp hafa byggt ræður sínar á?

Ég tel því mörgum spurningum ósvarað og vonast til að fengnar verði skýringar á þessum viðsnúningi og svör við þessum spurningum við vinnslu málsins í þinginu og ég vonast svo sannarlega til að hæstv. ráðherra geti sjálfur verið með okkur í umræðunni á síðari stigum.

Vert er að ræða fjölmargt annað í frumvarpinu sjálfu en ég tel mikilvægt og að minnsta kosti mikilvægast á þessu stigi að einblína svolítið á aðalatriðin. Engu að síður leyfði ég mér að fjalla sérstaklega um 19. gr. af því að ég tel að það hafi einfaldlega ekki verið gert í umræðunni í kvöld. Ég tel rétt að við reynum að deila aðeins með okkur verkum í þessu sambandi.

Frú forseti. Það eru fleiri atriði í fylgiskjali II, umsögninni frá fjármálaráðuneyti, sem vert er að skoða. Það er náttúrlega ljóst að verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla, eins og segir í umsögn ráðuneytisins, „að tekjur ríkissjóðs af leigu aflamarks geti aukist um nálægt 3 milljarða kr. miðað við sambærilega úthlutun aflamarks og á yfirstandandi fiskveiðiári. Mörkun leiguteknanna mundi þó leiða til þess að gera má ráð fyrir að 60% þeirra, eða um 1,8 milljarðar kr., muni árlega renna til aðila utan A-hluta ríkissjóðs og auki útgjöld hans sem því nemur.“

Yfir þetta er farið í umsögninni og í raun er þetta það eina sem liggur fyrir varðandi mat á frumvarpinu. Það er því ljóst að heilmikil vinna er eftir. Maður hefur náttúrlega áhyggjur af því hversu skammt er eftir af þinginu og það er athugunarefni hvers vegna þetta mál kemur fram svo seint. Ég veit að fleiri hafa vakið athygli á þessu í dag en í hinu stóra samhengi verðum við að reyna að tileinka okkur betri vinnubrögð varðandi framlagningu mála. Það hefur legið fyrir að ég tel frá því að þessi ríkisstjórn náði saman um helstu stefnumál sín að til stæði að breyta umhverfinu varðandi fiskveiðistjórnarkerfið og auðvitað hafa menn deilt um með hvaða hætti það skuli gert. En ég tel að við verðum að reyna að læra af reynslunni hversu óheppilegt er að fá svona stór og þung mál inn í þingið svona seint.

Frú forseti. Við skulum reyna að bæta okkur hvað þetta varðar og ég vona svo sannarlega að það verði gert á næsta þingi. Við náum því varla úr þessu.