140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar síðustu orð hv. þingmanns get ég auðvitað tekið undir þau. Ég get raunar sagt að sú sem hér stendur sem menntamálaráðherra í daglega lífinu er ekki barnanna best í því. Við þyrftum kannski að ræða á breiðari vettvangi um vinnulag og ferli því að það er alveg ótrúlegt hvað hlutirnir virðast stundum taka langan tíma.

Mig langar fyrst og fremst að ræða það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni varðandi 19. gr., um þann sjóð sem þar er nefndur. Sú gagnrýni og þær athugasemdir sem koma fram í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins eru auðvitað allrar athygli verðar, mér finnst mikilvægt að við ræðum það alltaf þegar um er að ræða sérstaka markaða tekjustofna. Þarna er hins vegar átt við skilgreind verkefni sem ég held að sé mikilvægt að eignist ákveðinn sjóð svo hægt sé að sinna þeim, þ.e. markaðs- og þróunarmál sjávarútvegsins.

Mitt mat er að mjög mikilvægt sé að þetta haldist í hendur við almenna endurskoðun á öðrum sjóðum og ég vil nefna til að mynda AVS-sjóðinn sem ekki er í lögum en fær hins vegar framlag á fjárlögum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að horfa á þetta í samhengi við þann sjóð. Mín persónulega skoðun er sú að sá sjóður eigi að vera hluti af hinum almennu rannsókna- og tækniþróunarsjóðum, þ.e. að við eigum að horfa í raun og veru á sjóðina sem rannsóknasjóði og nýsköpunarsjóði sem nýtist öllum atvinnugreinum. Síðan finnst mér í sjálfu sér eðlilegt að ólíkar atvinnugreinar hafi sjóði sem sinni ekki grunnrannsóknum heldur þróunar- og markaðsmálum. Það verður mjög áhugavert að sjá hvað sú nefnd sem hér er boðuð í bráðabirgðaákvæði nr. VI gerir tillögur um, en ég held að mikilvægt sé að það haldist í hendur við þessa heildarsýn.

Hvað varðar þær skoðanir sem vitnað var til hjá hv. þingmanni þáverandi, Steingrími J. Sigfússyni, núverandi ráðherra, segi ég hins vegar að mér hefur alltaf þótt mjög eðlilegt að skipta um skoðun þegar maður er búinn að rýna málin. En ég reikna með að hann muni betur gera grein fyrir röksemdum fyrir því þegar hann tekur þátt í þessari umræðu.