140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og átta mig á að ráðherrann getur ekki svarað fyrir aðra en þá sem hér fór yfir þetta mál með okkur.

Varðandi sjóðinn liggur náttúrlega jafnframt fyrir að fjárlaganefnd hefur gagnrýnt ráðstafanir eins og hér eru á ferðinni með því að búa til þennan sjóð. Það er spurning hvort þetta mál sem við ræðum hér verði sent til fjárlaganefndar til umsagnar af því að nefndin hefur verið að fjalla um slík atriði og hefur væntanlega einhverjar hugmyndir um hvernig þessum málum væri betur sinnt. Ég átta mig á því að væntanlega er þingmeirihluti fyrir þessu máli þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt það fram. Þá er nú snöggtum skárra að reyna að hafa stjórnsýsluna að minnsta kosti þannig að þingmennirnir sjálfir sem ætla að samþykkja málið hafi ekki á öðrum vettvangi ályktað gegn framkvæmd sem þessari. Mig langar að benda á þann möguleika fyrir þá sem ætla að stýra meðferð þessa máls í gegnum þingið af því að við hljótum alltaf að vera að reyna að bæta okkur og laga vinnubrögð. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst sérkennilegt að þá sé verið að lögfesta eitthvað sem flestallir eru orðnir sammála um að sé einhvers konar úrelt framkvæmd. Kannski er þetta vegna þess að mönnum hefur ekki dottið neitt annað í hug eða kannski vegna þess að menn ætla sér hreinlega að taka upp þá stefnu að fara aftur til fortíðar í þessu máli. Það væri að minnsta kosti ágætt ef við í þinginu fengjum þá að vita það ef stefnan er sú, og hvort stefnan sé sú varðandi aðra sjóði og hvort það eigi að stofna enn fleiri sjóði. Við munum hvernig þetta var áður fyrr þegar sjóðir voru hér í öllum skúmaskotum og yfirsýnin lítil sem engin.