140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður þóttist hafa himin höndum tekið þegar hún mætti í ræðupúlt með 15 ára gamla grein sem sýndi einhverja skoðun sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafði á veiðileyfagjaldi á því herrans ári 1997 þegar ég og hann vorum samherjar í flokki sem þá hét Alþýðubandalagið. Ég hef sjálfsagt deilt með honum þessari skoðun á þessum tíma enda umræða um veiðigjald og veiðileyfagjald þess tíma allt önnur en umræðan sem við erum að fara í gegnum í dag. Sjávarútvegurinn er búinn að taka miklum breytingum og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Burt séð frá því, ef við horfum bara til þeirrar umræðu sem við höfum verið í á þessu kjörtímabili í svokallaðri sáttanefnd sem hv. þingmaður og hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson leiddi og svo þeirrar vinnu sem menn hafa farið í í framhaldi af því, frumvarps hv. þm. Jóns Bjarnasonar frá því í fyrra og þeirrar málamiðlunar sem við sjáum í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, hverju telur hv. þingmaður að þessi grein bæti við þá umræðu sem við förum hér í gegnum? Hvert er efnislegt framlag þessa viðtals og hvernig hefur það einhverja tengingu við þá umræðu sem við erum að reyna að fara í gegnum hér? Hverju bætir þetta við málið?