140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:50]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er lofsvert og ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri viðleitni hv. þingmanns að kynna sér málið, leita víða fanga og fara langt aftur í tímann til þess. Það er hið besta mál. En mér fannst, og kannski er það misskilningur hjá mér sem hv. þingmaður getur leiðrétt þegar hún kemur aftur hingað til að svara andsvarinu, að hér væri á ferðinni hinn hvimleiði og gamli íslenski siður að fara frekar í manninn en boltann. Það virtist vaka fyrir þingmanni að draga upp viðtal sem var tekið fyrir 15 árum og segja: Aha, hann hefur skipt um skoðun og hann þarf að koma hingað þegar færi gefst og útskýra hvernig hann getur núna haldið einhverju öðru fram en hann gerði fyrir 15 árum.

Ef það er misskilningur hjá mér að þarna hafi þessi hvimleiði siður verið á ferðinni og þetta er raunverulegt og efnislegt framlag sem dýpkar umræðuna um það frumvarp sem nú er til umfjöllunar stend ég hér bara leiðréttur og mun glaðari.