140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er enn og aftur til umræðu frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Eins og fyrri frumvörp sem hafa komið til umræðu um þennan málaflokk byggja þau á samþykkt ríkisstjórnarinnar sem setti það í stjórnarsáttmála sinn í maí 2009 að gera breytingar á þeim lagabálkum sem hér um ræðir. Eitthvað hefur gengið treglega að láta þetta ná fram að ganga. Nú kemur málið fram undir lok vorþings með nokkrum breytingum frá síðustu útgáfu en þó í meginatriðum nokkuð í sömu átt og þar var sett fram.

Ég vil fyrst staldra við 1. gr. þessa frumvarps sem ég held að almennt sé þokkalegur samhljómur um meðal þingmanna. Hún lýtur að markmiðum þessara laga, þjóðareign og meðferð réttinda. Það sem á eftir þeirri grein kemur held ég hins vegar að deilur standi að verulegu leyti um, þ.e. hversu mikla þýðingu þær breytingar sem frumvarpið ber með sér hafi í því að verða við þeirri markmiðssetningu sem greinir sérstaklega í liðum c, d og e í 1. gr. Þeir lúta að því að markmið laganna sé að treysta atvinnu og byggð í landinu, hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu og síðan í e-liðnum að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi.

Þegar maður rýnir í þetta frumvarp kemur í ljós að meginbreytingin sem verið er að gera er að byggja undir svokallaðan leigupott sem ætlað er að setja inn í gegnum það sem kallað er kvótaþing. Um það er fjallað í 17. gr. Við sjáum hins vegar í ýmsum greinum hvernig lagt er inn í þetta kvótaþing þar sem verið er að klípa af og færa frá núverandi veiðiheimildum inn í þennan leigupott. Þar liggur stóra línan í þessu.

Það sem vakti þó athygli mína fyrst í tengslum við hin háleitu og góðu markmið sem þokkaleg samstaða er um er að í þessum gögnum sem við höfum er ekki neitt mat á því hvaða áhrif þær tillögur til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða sem hér eru gerðar hafi til þess að treysta þau markmið sem sett eru í 1. gr. Það er mjög miður og við þekkjum það af fyrri umræðu um frumvörp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða að sá skortur á gagnaöflun, úrvinnslu og mati hefur leitt til mun harðari deilna um þessi efni en ástæða var kannski til. Það væri betur að slík úttekt fylgdi jafnhliða því verki sem hér er lagt fram. Það er það sem ég nefndi hér sem lýtur að leigupottinum, það eru ýmsar leiðir farnar til að fylla upp í hann.

Fyrst liggur hér fyrir að það á að taka 3% af veiðiheimildum þegar um er að ræða framsal á milli ólíkra útgerðaraðila. Það á að renna í leigupottinn. Ég hef ekki séð neitt mat á því hvað þetta þýðir í raun fyrir útgerðarmynstur, áhrif á byggðir eða annað því um líkt. Að því sem lýtur að framsalinu kemur hins vegar fram í frumvarpinu að það verði óheimilt eftir að þessum 20 ára nýtingartíma lýkur sem kveðið er á um að tekinn verði upp.

Eitt atriði enn sem snertir leigupottinn lýtur að sölu á veiðiheimildum. Þá hafi ráðherra tiltekinn forkaupsrétt og það sem kann að verða keypt af ríkinu af þeim heimildum sem til sölu eru eigi þá sömuleiðis að renna inn í þennan leigupott. Það liggur allt í þá veru að byggja undir hann og stækka. Mér skilst á þeim sem gerst þekkja til þessa frumvarps að það sé ráðgert að sá pottur verði um það bil 20 þús. tonn.

Það sem ég vil einnig nefna hér er það sem sagt er um kvótaþingið. Ég hef reynt að fá fram frá þeim sem að þessu frumvarpi standa hvernig þetta er hugsað en hef ekki fengið nein skýr svör um það. Það er engin regla eða fyrirmæli í frumvarpinu um það með hvaða hætti þessu þingi er ætlað að vinna í raun. Hins vegar liggur fyrir gróft kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um kostnaðinn sem af þessu kann að leiða. Það má ætla að á fyrsta ári geti kostnaðurinn sem leggja þarf út fyrir numið hátt í 100 millj. kr. Þar af er stofnkostnaður í tölvubúnaði og uppsetningu á nýjum kerfum um 65 millj. kr. Allt telur þetta. Væntanlega þarf þá með einhverjum hætti að fjármagna það.

Það sem ég staldra enn og aftur við í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og hefur verið í fyrri frumvörpum eru þær gríðarlega miklu heimildir sem ráðherra eru ætlaðar. Þeir fá að ráðstafa þeim verðmætum sem þarna eru vissulega á ferðinni. Það er kveðið á um það sérstaklega í 13. gr. að ráðherra hafi ráðstöfunarheimild yfir innleystum aflaheimildum sem hann hefur innleyst á grundvelli forkaupsréttarins innan viðkomandi byggðarlags, sveitarfélags eða landshluta samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar. Síðan eru fyrirmæli í þessari grein um að ráðherra eigi að auglýsa hlutdeildina til sölu á þessum sömu svæðum, en það er engin önnur takmörkun í lagagreininni með að þessar veiðiheimildir eigi eingöngu að fara til eiganda skips í sveitarfélagi eða eigenda skipa í landshlutum. Það eru engin fyrirmæli um að þessar heimildir eigi að nýtast til neinnar atvinnuuppbyggingar eða neins því um líks þannig að ég sé ekki beinlínis tilganginn í því að tryggja ráðherra forkaupsrétt á veiðiheimildum eða aflahlutdeildum með þeim hætti sem hér er lagt til ef það er eingöngu til þess að geta skráð þær á skip innan viðkomandi sveitarfélags, svæðis eða landshluta. Það er til dæmis ekkert sem lýtur að því, með sama hætti og ætlunin er varðandi byggðakvótann, að binda þetta vinnslu á viðkomandi svæðum.

Ég vil líka staldra hérna við það sem rætt er um í 18. gr. um aðra aflahlutdeild. Það er líka úthlutun í potta. Þar kemur með sama hætti til að þar er ætlunin að frá og með fiskveiðiárinu 2015/2016 verði heimilt að ráðstafa tilteknu magni aflahlutdeilda sem ríkið hefur yfir að ráða samkvæmt flokki 2 til að stuðla að nýliðun með útgáfu nýrra nýtingarleyfa. Það er engin frekari útfærsla á þessu með sama hætti og ég hef kallað eftir varðandi kvótaþingið.

Eitt atriði enn sem lýtur að kvótaþinginu er ráðstöfun á þeim tekjum sem úr því kunna að koma. Þar er enn ein opna heimildin sem lýtur að því að tekjur sem aflað er við ráðstöfun aflamarksins úr þessum svokallaða flokki 2 eigi að renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Þetta geta orðið umtalsverðir fjármunir, nokkrir milljarðar árlega. Úr þessum sjóði á síðan að ráðstafa samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Einu fyrirmælin um ráðstöfunina í þessu frumvarpi hér eru þau að ráðherra eigi að láta ríkið njóta 40% teknanna, sveitarfélög 40% og að í markaðs- og þróunarsjóð eigi að renna 20%.

Ég hefði álitið að við ákvörðun um svo viðamikla ráðstöfun fjármuna lægju fyrir í það minnsta skýrar hugmyndir um í hvaða verkefni þessir fjármunir ættu að renna. Hér er ekki gerð nein tilraun til þess heldur er sett saman úthlutun allra þeirra fjármuna sem af þessum ráðstöfunum kann að stafa á grunni einhverra hugmynda sem voru uppi við nokkurn núning við umræðu hér fyrr á tíð um skiptingu af þeim tekjum sem þarna komu inn. Ef ég man rétt var við fyrstu útgáfu síðasta frumvarps sem við ræddum gert ráð fyrir að sveitarfélögin fengju umtalsvert stærri hluta. Þá átti jafnframt að skipta á milli sveitarfélaganna eftir útgerðarflokkum sem þar voru og höfðu verið á einhverjum undanförnum árum. Engin tilraun er gerð til að fara ofan í saumana á þessu hér, heldur bara settar fram þessar þrjár meginlínur sem í raun er alveg ómögulegt að átta sig á hvernig kunni að verða ráðstafað.

Það er líka eitt atriði hér sem ég vil gera að umtalsefni sem lýtur að strandveiðum sem rætt er um í 20. gr. Þar er umdeilt mál sem hefur verið mikið rifist um allt frá því að þetta var sett af stað, sennilega á árinu 2009 eða 2010, og mikill styrr staðið um. Þar eru enn inni hálfhjákátleg skilyrði um strandveiðarnar. Það er sett inn að hámarkið sé 650 kg á dag en það er skilyrt að handfærarúllurnar megi aldrei vera fleiri en fjórar um borð. Að mínu mati skiptir í sjálfu sér ekki nokkru einasta máli hvort menn dragi 650 kg af fiski úr sjó á tvær eða tíu handfærarúllur ef hámarkið er dregið. Mér finnst það skjóta nokkuð skökku við að útfærslan á þessum þætti málsins skuli vera svona nákvæm en þegar við horfum til stærri þátta eins og þess sem ég nefndi um ráðstöfun á þeim tekjum sem koma inn í gegnum kvótaþingið er ekki gerð nokkur einasta tilraun til að skýra það.

Hér er hins vegar atriði sem lýtur að strandveiðunum sem ástæða er til að vekja athygli á. Þar eru flytjendur frumvarpsins farnir að þreifa sig inn í það að búa til verðmæti úr strandveiðiréttindunum og kvótasetja strandveiðarnar. Í 20. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um strandveiðar. Þar er heimilt að kveða á um:

1. Lágmarksdagafjölda fyrir hvert fiskiskip í maí og júní …“

Með öðrum orðum er gert ráð fyrir því að farið verði að úthluta kvóta þeim einstaklingum sem gera út á strandveiðarnar, þ.e. þeir fái ákveðinn dagafjölda um leið og þeir fá leyfi til að skrá sig í kerfið. Ég held að mig misminni ekki með það að þegar við ræddum þetta síðast var töluvert mikill samhljómur meðal þingmanna um að strandveiðarnar ættu ekki að fara í þennan farveg. Hér sjáum við það birtast í þessu frumvarpi að nýjum lögum að strandveiðikerfið er þegar farið að sækja inn í þann farveg sem allt virðist sækja í þegar gerðar eru breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. að menn reyna að búa sér til úr þessu verðmæti, skapa sér stöðu, opna kerfið og prjóna við það. Það birtist okkur ágætlega í þessari tilraun sem hér er gerð til að strandveiðiflotinn geti síðan í framhaldinu farið að gera kröfur á ríkisvaldið um að þau réttindi sem hann hafi aflað sér verði ekki skert og hann eignist meiri rétt í kerfinu. Þetta gengur þvert á það sem áður hefur verið rætt um varðandi þær breytingar sem menn ætluðu sér að gera þegar þetta var sett í stjórnarsáttmálann á árinu 2009.