140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan að hún nefndi að fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum búið við hérna lengi væri ekki fullkomið kerfi — sem það svo sannarlega er ekki frekar en önnur mannanna verk — enda hefði það í gegnum tíðina tekið alls kyns breytingum og lagfæringum, flestum reyndar ekki til góðs að mati hv. þingmanns.

Ég get tekið undir þá skoðun heilt yfir með hv. þingmanni að kerfið er ekki fullkomið. Það er ýmislegt gott við það og ýmislegt slæmt. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það. Hvað telur þingmaðurinn best við það kerfi sem nú er í gangi og hefur verið í á þriðja áratug? Og hvað er verst við það? Þá spyr ég líka í leiðinni hverju mætti breyta ef þingmaðurinn vildi breyta einhverju í dag í þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Hverjir eru helstu agnúarnir sem mætti sníða af að mati þingmannsins og hvernig mætti breyta því þannig að við nálguðumst frekar þau markmið sem hafa verið í lögum um stjórn fiskveiða til þessa en við höfum ekki færst nær þeim öllum? Við höfum reyndar náð sumum ágætlega en ekki öllum.

Hvað telur þingmaðurinn að megi fara betur í kerfinu sem ekki er fullkomið að mati okkar beggja?