140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin við spurningum mínum. Reyndar hafa allir sem hafa skoðað þetta mál í gegnum tíðina verið sammála um að það eigi að greiða fyrir þetta ákveðið gjald, (Gripið fram í.) alveg frá 1999. Í öllum skýrslum frá árunum 2000, 2001 og 2010 er meginniðurstaðan sú að það eigi að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni. Að hluta til hefur það verið gert en í mjög litlum mæli og stundum ekki neitt. Gjaldtakan hefur verið ákvörðuð að mínu mati á frekar röngum forsendum, þ.e. út frá aflaverðmæti hverju sinni en ekki út frá afkomu. Afurðaverðmætið segir ekki alltaf allt um afkomuna í greininni.

Ég spurði líka hv. þingmann um stjórn fiskveiða sem slíka. Ég held að við séum flest nokkuð sammála um auðlindaákvæðið, eignarhaldið og allt það og í prinsippinu að það eigi að greiða fyrir aðgang að auðlindinni, en spurningum mínum var frekar beint í átt að stjórn fiskveiða, hvernig við stjórnum fiskveiðunum sjálfum, byggjum upp fiskstofna, hvernig við eigum að nýta þá o.s.frv. Þar hefur okkur borið talsvert af leið að mínu mati á þessum 20 árum.

Annað sem mig langaði til að vekja athygli á í ræðu hv. þingmanns, sem ég tek undir, varðar markaðsmálin í sjávarútvegi. Getur þingmaðurinn tekið undir það með mér að við eigum að koma frekar að markaðsmálum í sjávarútvegi en verið hefur, rétt eins og við gerum með margar aðrar atvinnugreinar? Ég nefni ferðaþjónustuna, landbúnaðinn, iðnaðinn o.s.frv. þar sem hið opinbera hefur komið dálítið ákveðið að markaðs- og kynningarmálum á þessum greinum með góðum árangri. (Forseti hringir.) Við ættum kannski að reyna við vinnslu þessara frumvarpa að horfa frekar til þess.