140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt hjá hv. þingmanni að það má segja að ég hafi ekki svarað að öllu leyti spurningum hans í mínu fyrra andsvari. Ég tel ótvírætt að einn meginkostur núverandi kerfis sé framsal aflaheimildanna. Ég held að það stuðli að hagkvæmni í greininni, stuðli að því að menn reyni að nýta fjármagnið sem best. Það sýnir líka best að við erum að fá mun meira í dag fyrir hvert þorskkíló á markaði en áður með minni tilkostnaði. Við erum að ná betra og meiru út úr þeirri vöru sem er fiskurinn í sjónum.

Ég ítreka aftur að útgerðin og byggðirnar í landinu borga veiðigjald til ríkisins í dag. Það kann vel að vera að það ætti að vera eitthvað aðeins hærra en það sem er verið að boða í þessu frumvarpi er of mikið. Ég sagði áðan að ég vonaði að einfaldlega væri um að ræða einhvern misskilning í þessari 70% skattlagningu af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Það mun að mínu mati ganga af sjávarútveginum dauðum. Ég held að um ákveðinn misskilning sé að ræða, ellegar verða menn að hlusta betur og fara betur yfir þau álit sem ég hef verið að tala um, m.a. það sem sérfræðingarnir Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, og Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, segja, með leyfi forseta:

„Um breytingar á veiðigjaldinu segja sérfræðingarnir að þær muni hafa veruleg áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og án efa kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.“

Þetta er nokkuð sem við getum ekki litið fram hjá. Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan, ég vona svo innilega að í stóru málunum sé styttra á milli okkar. Ef þetta frumvarp þýðir hins vegar það sem margir vilja segja, stóraukna skattlagningu á útgerðarfyrirtæki, er langt á milli manna.