140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég náði ekki alveg að klára umræðu um þetta mál fyrr á þessum fundi og ætla því að ræða aftur og áfram um málið, frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.

Það sem ég ætla að byrja á að ræða er 1. gr., Markmið, þjóðareign og meðferð réttinda. Mér finnst nefnilega að markmiðin rekist á og það vill oft verða hjá þeim sem vilja vera góðir við alla.

Í fyrsta lagi stendur hér í a-lið: „að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland“. Þetta finnst mér vera afskaplega gott markmið og sjálfsagt. Við ætlum að búa lengur á Íslandi og það er mjög mikilvægt að fiskstofnarnir séu sjálfbærir, þeir eru mjög stór hluti af okkar efnahag og tekjum.

En síðan stendur í b-lið: „að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi“. Nú vandast málið, frú forseti, vegna þess að nú eiga einhverjir menn við grænu skrifborðin eftir að átta sig á því til framtíðar hverjir hagsmunir komandi kynslóða verða, að hafa það að leiðarljósi og stuðla að farsælli samfélagsþróun. Hvað skyldi það þýða, frú forseti? Á að halda einhverju ákveðnu þorpi á Vestfjörðum í byggð þó að allur grundvöllur sé í rauninni horfinn? Á að halda einhverjum stað á Austurlandi í byggð þó að samþjöppun hafi gert það að verkum að það margborgi sig að veiða allt á einum stað eða eitthvað slíkt? Hver á eiginlega að ákveða hverjir séu hagsmunir komandi kynslóða? Hver er slíkur spámaður, hver er slíkur alvitur sovétkommissar? Þetta er ekkert annað, þarna á einhver embættismaður að ákveða hverjir séu hagsmunir komandi kynslóða og hann á að stuðla að farsælli samfélagsþróun í þá átt. Þetta rekst á við fyrra markmiðið, um að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna, því að það gæti verið að það borgaði sig ekki að gera það sem þessi ákveðni kommissar telur að þurfi fyrir hagsmuni komandi kynslóða eins og honum finnst að muni verða.

Síðan stendur í c-lið: „að treysta atvinnu og byggð í landinu“. Þetta er nú einmitt það sem rekst á fyrsta markmiðið vegna þess að ef menn ætla til dæmis að halda byggð um allt land og markaðurinn segir eitthvað annað, að það sé skynsamlegra að veiða fiskinn annars staðar, landa honum annars staðar eða vinna hann annars staðar, og það verði ákveðin þróun í þá veru að nýjar samgöngur, ný tækni, eitthvað slíkt, geri það að verkum að það borgi sig að veiða fiskinn á stað A en ekki B, á samkvæmt þessu að treysta atvinnu og byggð í landinu, þ.e. það á að veiða fiskinn áfram á stað A þó að það borgi sig ekki. Þetta rekst að sjálfsögðu á sjálfbæra nýtingu fiskstofna.

Svo stendur í d-lið: „að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu“. Þetta rekst á allt hitt nema kannski fyrsta ákvæðið, um að nýting fiskstofna sé sjálfbær, vegna þess að eins og ég gat um getur ákvæðið um að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi verið algjörlega óhagkvæmt, algjörlega, og þjóðin getur tapað á því. Þannig að þetta ákvæði um að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni rekst á alla vega hin tvö atriðin.

Síðan kemur að síðustu, sem fer saman við næstsíðasta ákvæðið: „að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi“. Það fer saman við að hámarka þjóðhagslegan ávinning. Ég sé það alla vega þannig, ég get ekki séð sjávarútveginn sem óarðbæran og samt sé þjóðhagslegur ávinningur af sjávarauðlindinni hámarkaður. Þetta fer algjörlega saman. Þetta rekst hins vegar á það að treysta atvinnu og byggð í landinu og þetta rekst á það að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Mér vannst ekki tími, frú forseti, nema til að ræða þetta litla atriði, ég ætlaði að ræða miklu meira. Ég ætlaði að ræða um flokk 1 og 2 og sovétismann sem skín hér alls staðar í gegn.