140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um gögn sem eru lögð fram en mér finnst þau aðallega vanta. Það væri ágætt að fá að vita sjónarmið hv. þingmanns um það að menn séu ekki einu sinni búnir að taka út áhrifin á bankana.

Ég ætla að vísu aðallega að spyrja hv. þingmann hvort þeim í hv. atvinnuveganefnd finnist bara alveg sjálfsagt að færa endalaust framsal frá þingi til ráðherra. Í þessu stutta frumvarpi eru 55 atriði um heimild ráðherra til að gera allt milli himins og jarðar. Þetta eru engar smáákvarðanir, þetta eru ákvarðanir sem snerta tugi milljarða. Finnst mönnum það bara eðlilegasta mál í heimi að hæstv. ráðherra fari með einhvers konar einræðisvald í þessum málaflokki? (Forseti hringir.) Ég vildi heyra hjá hv. þingmanni sjónarmið hans hvað þetta varðar vegna þess að mér hefur fundist þetta afskaplega lítið áberandi í umræðunni í dag (Forseti hringir.) og vona að það sé ekki vegna þess að menn séu sáttir við það.