140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er ömurlegt að vita til þess að menn hafi ekki lært af reynslunni frá því á síðasta ári heldur komi fram með svo óundirbúið plagg þar sem ekki er búið að fara neitt ofan í áhrif þess á bankakerfið, byggðirnar, einstaka útgerðarflokka, afkomu fyrirtækjanna eða afkomu sjómanna. Sú vinna er öll eftir. Það er alveg fáránlegt að leggja fram svona frumvarp og eiga þessa stóru þætti eftir. Sú stutta greinargerð sem fylgir með frá Daða Má upp á tíu síður um þetta mál er engan veginn fullnægjandi. Það er greinilegt að honum hefur verið ætlaður lítill tími til að vinna hana en svo hefur heldur ekkert tillit verið tekið til þeirrar gagnrýni og þeirra athugasemda sem þar koma fram.