140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við urðum vör við þessa sömu tilhneigingu í því frumvarpi sem var lagt fram á síðasta ári, að færa mjög mikið vald til ráðherra og auka miðstýringarvald framkvæmdarvaldsins í þessum málaflokki. Það gengur þvert á þá stefnu sem hefur verið á undanförnum árum þar sem menn hafa viljað hafa ákveðið framsal opið, láta greinina leita þeirrar hagræðingar og ná þeim besta árangri sem mögulegur er í rekstri. Þetta er mikið og sterkt inngrip í það.

Þetta er alveg í takt við stjórnarhætti vinstri manna. Maður veltir fyrir sér hérna hvort Samfylkingin og Vinstri grænir séu núna að fara að gæta þeirra sérhagsmuna sem þeir eru alltaf að tala um, hvort það sé ekki markmiðið hjá þeim að ná á þessu einhverjum hreðjatökum. Þeir ætla að draga úr arðsemi (Forseti hringir.) veiðanna, veikja fyrirtækin i landinu og ná ákveðnu miðstýringarvaldi til að gæta sérhagsmuna. (Forseti hringir.) Spurningin er bara hverra.