140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 11. gr. í IV. kafla frumvarpsins, á bls. 4, er fjallað um leyfi til að nýta aflahlutdeild. Það vakti athygli mína í gær þegar ég var að lesa frumvarpið að í þeirri grein, í annarri setningu, stendur, með leyfi forseta:

„Tefjist veiting leyfis umfram frest þennan af ástæðum sem ekki varða stjórnvöld er viðkomandi aðila óheimilt að nýta aflamark frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013.“

Þegar ég les skýringar með 11. gr. er þar ekki að finna, eða ég hef að minnsta kosti ekki rekist á það, útskýringar á því hvaða hlutir það geti verið sem ekki varði stjórnvöld, sem geta leitt til þess að viðkomandi aðili fær ekki að (Forseti hringir.) nýta aflamarkið. Ég spyr því hvort eðlilegt sé að vera með svo óljóst atriði og matskennt að því er virðist í svona stóru máli.