140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Í 1. gr. frumvarpsins er sagt að markmið þess sé að treysta og efla byggð í landinu. Hér hefur verið töluverð umræða um hvort þetta frumvarp uppfylli það markmið. Í þeirri umsögn sem fylgir og unnin er af tveimur ágætum mönnum er dregið í efa að með frumvarpinu sé hægt að ná því að efla byggð með nokkrum hætti í landinu. Það að setja 50% af potti 2 í kvótaþing sé til að mynda ekki til þess fallið, auðlindagjald sem ekki skiptist út til sveitarfélaganna sé heldur ekki til þess fallið.

Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að frumvarpið sem hér liggur fyrir og eins og það er upp sett nái því markmiði sem sett er fram í 1. gr. frumvarpsins um að efla byggð um allt land.