140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er um margt ágæt umræða sem farið hefur fram hér í kvöld og nótt. Ég sakna þess þó, frú forseti, og vil biðja forseta um að reyna að upplýsa um það, að þrátt fyrir að okkar ágæti tímabundni sjávarútvegsráðherra sitji hér og hlusti á þessa umræðu er hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon ekki á svæðinu. Ég held að mjög mikilvægt sé að þessi umræða klárist ekki án þess að sá ágæti ráðherra hafi tækifæri til að taka þátt í henni. Þess vegna held ég, frú forseti, að mikilvægt sé að velta því fyrir okkur hvort við getum ekki frestað umræðunni þannig að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon geti tekið þátt í henni þegar hann kemur heim. Ég veit reyndar ekkert hvenær ráðherrann kemur heim en hugsanlega væri hægt að halda umræðunni áfram á morgun. Ég held að það skipti miklu máli að ráðherrann taki þátt í umræðunni til að fræða okkur um tildrög þessa máls og þeirra greina allra sem í því eru og svara fyrir það hvers vegna ekki hafi verið farið í ákveðnar aðgerðir til að undirbúa málið betur, (Forseti hringir.) til dæmis að meta áhrif þess á bankana.