140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti Það kom fram í ræðum í dag hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem var sjávarútvegsráðherra á undan hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingrími J. Sigfússyni, að hann skildi ekki hvers vegna hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði ákveðið að gefa eftir gagnvart Samfylkingunni, eins og það var orðað, varðandi byggðasjónarmið. Ég vil í því ljósi taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir umræðuna að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé við hana áður en henni lýkur svo hann geti tekið þátt í henni og upplýst hvers vegna þessar breytingar hafa orðið á frumvarpinu, hvers vegna byggðatengingarnar sem áður voru í frumvarpinu hafi verið teknar út. Ég held að mikilvægt sé fyrir framhald þessa máls að það sé upplýst áður en umræðunni lýkur og málið gengur til nefndar.