140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur hjá hæstv. menntamálaráðherra getur hún eðlilega ekki svarað hér spurningum sem beinast sérstaklega að formanni Vinstri grænna. Það er eðlilegt að spyrja hann um ýmislegt eftir þessa kúvendingu á stefnu hans þar sem hann kallar veiðigjaldið óskynsamlegan og óréttlátan skatt og segir að það eigi að hætta þessari vitleysu. Í þessu sama erindi sínu segir hann að það séu til miklu betri leiðir til að leysa þau vandamál sem stuðningsmenn veiðigjalds telja sig ætla að leysa með veiðileyfagjaldi. Hann er með allt aðrar hugmyndir. Það er nauðsynlegt fyrir okkur í umræðu um þetta viðamikla mál að hæstv. ráðherra sem hefur kúvent svo í skoðunum sínum gefi einhverjar skýringar á því af hverju það er. Hvað hefur breyst í umhverfi sjávarútvegsins sem réttlætir þessa kúvendingu hjá honum? Er það samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sem hann er að beygja sig fyrir? Eru Vinstri grænir (Forseti hringir.) að beygja sig í duftið fyrir Samfylkingunni? Það er ekki hægt að lesa annað út úr fyrri ræðum hæstv. ráðherra um þessi mál (Forseti hringir.) en að hér sé eitthvað mjög undarlegt á ferðinni. Það er alveg nauðsynlegt að við fáum einhverjar skýringar á því og náum að ræða þessi mál við hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Ég tek því undir beiðni um að fundinum verið frestað (Forseti hringir.) og beðið eftir hæstv. ráðherra.