140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikil spenna í þingsal meðan beðið er eftir svari mínu við þessari mikilvægu spurningu. Mig langar til að nefna arðsemina sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni. Það er mjög góð skýrsla sem greiningardeild Arion banka gaf út um íslenskan sjávarútveg, skýrsla upp á einar 64 blaðsíður þar sem er að finna mjög góðar upplýsingar um það hvernig arðsemin í íslenskum sjávarútvegi hefur breyst á undanförnum árum, sérstaklega hvernig hún tók stakkaskiptum þegar framsalið var gefið frjálst. Það eru einungis tveir þingmenn á Alþingi í dag sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu (REÁ: Hverjir skyldu það nú vera?) að gefa framsalið frjálst. Það voru þau forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra. Það eru einu þingmennirnir sem enn sitja á Alþingi frá því að sú atkvæðagreiðsla fór fram en nú eru þau í ríkisstjórn sem leggur fram frumvarp um að í framtíðinni verði framsalið alfarið bannað.

Ég tek að öðru leyti undir með hv. þingmanni um að við getum ekki leyft okkur að byggja hér upp sjávarútvegskerfi sem tekur eingöngu og alfarið tillit til arðseminnar. Um það getur ekki orðið sátt í þessu þjóðfélagi. Þess vegna höfum við um langt árabil haft margvíslegar aðgerðir byggðar inn í umgjörð fyrir þessa atvinnustarfsemi sem taka tillit til byggðanna, þeirrar röskunar sem leiðir af samþjöppun heimilda á færri staði og áfalla sem geta dunið yfir einstök byggðarlög eða útgerðarpláss. Það er síðan viðvarandi viðfangsefni að (Forseti hringir.) útfæra með hvaða hætti þetta er gert. Í ræðu minni vék ég að því að við ættum að safna þessum (Forseti hringir.) aðgerðum öllum saman í einn pott og fastsetja hann sem hlutfall af heildaraflanum. (Forseti hringir.)