140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég saknaði að heyra þess ekki getið í ræðu hv. þingmanns sem mér hefur fundist vera lítið áberandi í umræðunni og snýr að því að það eru 55 heimildir fyrir ráðherra til að setja reglugerðir um nokkurn veginn allt sem viðkemur sjávarútvegi. Ég get ekki séð annað, virðulegi forseti, en að með frumvarpinu sé verið að fela ráðherra, hver sem það yrði, ég ætla ekki að segja alræðisvald, en í það minnsta er alveg gríðarlegt framsal valdheimilda frá þingi til ráðherra. Ég hvet, virðulegi forseti, alla þá sem hafa áhuga á málinu, sérstaklega hv. þingmenn, til að kynna sér hvaða heimildir þetta eru.

Hæstv. ráðherra mun vera með byggðapotta. Hann mun vera með sérstaka sjóði. Síðan á hann að útfæra það en ekki er skilgreint almennilega hvernig hann á að gera það, hvernig hann á að útdeila, hvernig hann á að framkvæma þegar henn tekur inn aflaheimildir og fara með þær til svæða. Hann hefur heimildir til að setja reglur um úthafsveiðar, viðskipti um aflamark, krókaaflamark, nokkurn veginn allt sem viðkemur sjávarútvegi. Það eru heimildir ráðherra til að fara með þetta án þess að það sé skilgreint með neinum hætti.

Virðulegi forseti. Ég vil fá sjónarmið hv. þingmanns á þessu. Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður er sáttur við? Er það svo að hv. þm. Bjarna Benediktssyni finnist þetta bara alveg í fínu lagi?