140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta vekur athygli sem kom fram hér um formann samninganefndarinnar í makríldeilunni. Sá hinn sami var einnig settur af sem oddviti okkar í sendinefnd hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu sem hann hefur stýrt með miklum glæsibrag á undanförnum árum.

(Forseti (RR): Forseti óskar eftir að þingmaðurinn ræði fundarstjórn forseta.)

Já, ég skal snúa mér að því, virðulegi forseti. Þetta var smáútúrdúr.

Í ljósi þess að við höfum ekki með okkur hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki getað svarað ákveðnum spurningum, eðlilega, sem hefur verið varpað upp og snúa að honum, þá er það svo að hæstv. forsætisráðherra hefur staðið í stafni skútunnar við kynningu á þessu máli með hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég vil því óska eftir að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd þessa umræðu ef þessi fundur á að halda áfram. Ég hef velt hér upp upplýsingum um mikla kúvendingu hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra í (Forseti hringir.) þessum málum og um aðrar lausnir sem hann reifaði í ræðu sinni fyrir nokkrum árum. (Forseti hringir.) Kannski getur hæstv. forsætisráðherra gefið okkur skýringar á því hvernig þetta hafi farið fram, það er kannski (Forseti hringir.) líklegra en að hæstv. menntamálaráðherra geti það.