140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að gera athugasemd við fundarstjórn forseta því að ég fékk ekki tækifæri til þess að klára athugasemd mína áðan. Hér hófst bjölluhljómur áður. Ég ætla að koma því áleiðis til hæstv. forseta að gengið verði úr skugga um að hæstv. sjávarútvegsráðherra komi til landsins með fyrstu vél og ræði við okkur þótt ekki væri nema um þetta mál en einnig um þá staðreynd sem ég nefndi áðan, að búið er að víkja áðurnefndum samningamanni frá.

Auk þess óska ég eftir því og kem því hér á framfæri, frú forseti, að atvinnuveganefnd komi saman hið snarasta, í fyrramálið, (Gripið fram í: Strax, strax.) helst strax til að ræða þetta mál, vegna þess að það er algerlega óþolandi að sitja í einhverri óvissu með það hvernig standi á því að samningamaðurinn var látinn fara. Þess vegna vil ég koma því á framfæri, frú forseti, að atvinnuveganefnd verði kölluð saman. (Forseti hringir.) Hvet ég forseta til að brýna það fyrir formanni nefndarinnar að brugðist verði skjótt við þeirri beiðni.