140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hvet forseta til að vera örlítið skýrari í svörum sínum um framgang fundarins. Það er ekki úr vegi að við vitum nokkurn veginn hvernig fundi verði fram haldið og hvernig við ætlum að vinna úr þessu. Virðulegi forseti nefndi áðan að það væri sama hversu oft við spyrðum um hvers vegna hæstv. sjávarútvegsráðherra væri ekki við umræðuna, hann kæmi samt ekki. Ég held að samt væri ekki úr vegi, virðulegi forseti, að kanna hverjar séu raunverulegar ástæður fyrir því að hæstv. ráðherra er ekki á svæðinu. Það er fullkomlega útilokað, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hafi tekið einhverja ráðstefnu, hversu góð sem hún er, í Kanada fram yfir það að tala fyrir máli sem hann sagði, (Gripið fram í.) ef ég man rétt, í viðtali þegar hann tók við öllum þessum embættum (Forseti hringir.) að væri hans helsta ósk, að koma á sátt í sjávarútvegsmálum og keyra það mál í gegn. Svo þegar kemur að málinu er hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra floginn á vit (Gripið fram í: Ævintýra …) ævintýranna í Kanada, virðulegi forseti.