140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[03:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Frú forseti upplýsti um það áðan að það væri sama hversu mikið þingmenn kvörtuðu undan því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri ekki hér, hann mundi ekki birtast, a.m.k. ekki alveg á næstunni. Við gerum okkur grein fyrir þessu, frú forseti, en ég spurði frú forseta áðan hvort ekki mætti við þessar aðstæður gera ráðstafanir til að kanna hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri að fylgjast með umræðunni. Nú gefst kostur á því með hjálp samskiptatækninnar, ekki hvað síst netsins, [Hlátur í þingsal.] að fylgjast með umræðum á Alþingi (Gripið fram í.) um leið og þær eiga sér stað í eins konar beinni útsendingu. Gildir þá einu hvort menn eru staddir í Kanada, Simbabve eða hvar sem er þar sem er netsamband. (Gripið fram í: … Bay.) Nú geri ég ráð fyrir (Forseti hringir.) að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé á hóteli þar sem boðið er upp á netsamband eða geti að minnsta kosti fundið netkaffihús (Forseti hringir.) í Ottawa til að fylgjast með umræðum á þinginu. (Forseti hringir.) Getur virðulegur forseti kannað hver staðan er á þessu fyrir mig?