140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

orð þingmanns um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ef þetta er lýsing á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar í gær, sem ég hlífði sjálfri mér við að hlusta á, hefur hv. þingmaður snúið öllu á haus í þeirri ræðu. Í því sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur eftir honum úr ræðustól stendur ekki steinn yfir steini, að við höfum verið að fela sjávarútvegsfrumvarpið út af kjarasamningum. Það er auðvitað rangt.

Staðreynd málsins er sú að við stöndum núna í lok kjörtímabilsins, þegar eitt ár er eftir, með fiskveiðistjórnarfrumvarpið hjá þinginu vegna þess hve mjög hv. þm. Jón Bjarnason dró þetta mál og var seinn í allri vinnu með það. Hann hafði litla samvinnu við ríkisstjórnina í þessu máli. (JBjarn: Þetta er nú bara ósatt. …) Við þurftum að setja á sérstakar ráðherranefndir til að reyna að flýta þessu máli til að það hefði eðlilegan gang. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu hjá þingmanninum.

Þegar hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, kom loksins með frumvarpið inn í ríkisstjórn vildi hann setja það á vefinn hjá sér án þess að við gætum rætt það eða farið með það inn í þingflokkana. Það eru bara ósannindi sem hér er farið með úr ræðustól (Gripið fram í.) af fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Það er fyrst og fremst hægt að skrifa það á hans reikning hvað við erum sein með þetta mál á þessu kjörtímabili.