140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

orð þingmanns um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Manni er hálfbrugðið yfir þessum hörðu dómum yfir fyrrverandi samstarfsráðherra úr ríkisstjórn og ekki að undra að hv. þm. Jón Bjarnason skuli kalla fram í að hæstv. forsætisráðherra fari með rangt mál. Að minnsta kosti er mjög mikill munur á frásögn hæstv. forsætisráðherra og því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns í gær.

Yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra um að hún hafi ekki viljað hlýða á ræðu hv. þingmanns í gær, hlíft sér við því eins og hún orðaði það, hlýtur að vera einsdæmi í vanvirðingu forsætisráðherra við Alþingi. Þær fullyrðingar að hv. þm. Jón Bjarnason hafi dregið frumvarpið og sé helsta ástæðan fyrir því hversu hægt sjávarútvegsmál hafi gengið hjá ríkisstjórninni gengur líka í berhögg við það sem fram kom í ræðu hv. þingmanns í gær þar sem hann gerði (Forseti hringir.) grein fyrir því að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði í raun tekið sér lengri tíma í að vinna frumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu en fyrirrennari hans, hv. þm. Jón Bjarnason.