140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

veiðigjöld.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ríkisstjórnin hefur verið með stór og viðamikil mál undir á þessu kjörtímabili og hefur komið mörgum þeirra í gegn. Vonandi tekst það, þótt stutt sé eftir af þessu kjörtímabili, að koma þeim stóru málum sem hún vill ná fram, eins og fiskveiðistjórnarmálinu, rammaáætlun og svo stjórnarskránni sem við fjöllum væntanlega um í dag ef Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki í veg fyrir það, til að koma því máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru allt stór og mikil mál og taka mikinn tíma.

Varðandi fiskveiðistjórnarmálið tel ég að þau markmið sem við höfum sett okkur hafi náðst. Við erum að vinna í þessu frumvarpi með innköllun og endurúthlutun veiðiheimilda í þessu máli. Við erum að opna kerfið, auka nýliðun og jafnræði í þessari grein sem er mjög mikilvægt. Það sem mest er um vert er að við erum að auka það að arðurinn renni í miklu meira mæli til þjóðarinnar en verið hefur. Við höfum búið við það á þessum uppgangstíma í sjávarútvegi að hann sem hefur haft um 60 milljarða kr. í hagnað á árunum 2009 og 2010, hefur greitt af hagnaðinum til samfélagsins 3–5 milljarða. Það er þetta sem við viljum breyta.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði í gær að við værum að skattleggja sjávarútveginn það mikið að hann gæti ekki staðið undir þessu. Í gær var Grandi tekinn sem dæmi, hann hafði 6,2 milljarða í hagnað í fyrra en greiddi 400 milljónir í skatt. Það var allt og sumt. Hann hefði greitt um 1.600 millj. kr. ef frumvarpið hefði verið orðið að lögum.

Svo er það líka rangt sem kom fram hjá hv. þingmanni og fleirum í umræðunni í gær að það væri verið að skattleggja 70% af hagnaði. Hvernig sem þetta er reiknað er það ekki meira (Forseti hringir.) en þriðjungur af framlegðinni sem fer í skatt þannig að ég tel að skattlagningin hafi verið allt of lítil áður fyrr og að við séum að nálgast eðlilegan arð til þjóðarinnar. (Gripið fram í.)