140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

samningamaður Íslands í makríldeilunni.

[10:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni í umræðum um sjávarútvegsmál í gær að Tómas H. Heiðar, sem hefur verið aðalsamningamaður Íslands í bæði makríldeilunni og varðandi hvalveiðar, hafi verið látinn hætta sem slíkur. Aðspurður sagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á vef mbl.is í gærkvöldi, með leyfi forseta, „að skýringin á þessu væri sú að samningur hefði verið í gildi á milli utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins“ en væri runninn út.

Þetta er rangt svar hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Eftir því sem ég kemst næst var þessi samningur ótímabundinn og honum sagt einhliða upp af utanríkisráðuneytinu. Þess vegna spyr ég hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé ekki rétt hjá mér að þessum samningi sem gerður var á milli ráðuneytanna um Tómas H. Heiðar, sem er þrautreyndur samningamaður og reyndur að því að setja hagsmuni Íslands alltaf efst, standa í lappirnar, gefa ekki eftir og (Gripið fram í: Semja …) koma heim án þess að hafa samið ef eini samningurinn sem var í boði var vondur, hafi verið sagt upp. (Gripið fram í: Semja …) Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju var þessum samningi sagt upp núna á mjög viðkvæmum tíma í makríldeilunni? Af hverju er gripið til þessa ráðs? Hefur þetta einhver tengsl við umsóknarferlið við Evrópusambandið? Eins og við vitum hafa ummæli ýmissa ráðherra verið afgreidd hér sem einhvers konar ummæli til heimabrúks, m.a. írska sjávarútvegsráðherrans. Það blasir við (Forseti hringir.) að þarna eru mikil tengsl á milli makríldeilunnar og umsóknarinnar. Af hverju var verið að gera breytingar á þessari stöðu núna, á þessum viðkvæma tímapunkti?