140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

samningamaður Íslands í makríldeilunni.

[11:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir að staðfesta að þetta var samningur sem utanríkisráðuneytið og utanríkisráðherra sagði upp. Hann gaf sínar ástæður fyrir því og of langt mál er að ræða það hér. Þarna upplýsir hæstv. utanríkisráðherra að hæstv. sjávarútvegsráðherra fer með rangt mál í frétt Morgunblaðsins í gær þar sem hann segir að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hefði átt að vita af áðurnefndum samningi sem hefði runnið út. Þetta er einfaldlega rangt og hæstv. utanríkisráðherra var að staðfesta það.

Ég vil líka nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. utanríkisráðherra, því að ég er ekki sammála þeirri aðferðafræði að skipta um hest í miðri á í þessu mikilvæga verkefni sem varðar 25–30 milljarða kr. á hverju einasta ári. (Gripið fram í.) Þessi deila er á viðkvæmum stað. Hver á að taka við þessu verkefni, hver á núna (Forseti hringir.) að setja sig inn í þetta? Það er búið að byggja upp, eins og menn vita að gerist í samningum, traust á milli manna og skapa stöðu (Forseti hringir.) og þetta sendir bara vond skilaboð inn í þessa viðkvæmu deilu.