140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda.

[11:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er nefnilega nákvæmlega þannig að þegar menn hafa farið yfir vinnuna hjá umboðsmanni skuldara og greiðsluaðlögunarmálin hefur þetta mál komið upp og við höfum unnið töluvert að því að finna lausnir á þessu. Þetta hefur komið upp í umræðunni um skuldavandann og ég hef vakið athygli á því, meðal annars úr ræðustól, að ég hef haft áhyggjur af því fólki sem kannski er ekki hvað háværast í umræðunni en býr í raunveruleikanum við það að tekjur þess duga varla fyrir nema rétt nauðþurftunum og alls ekki fyrir húsnæði. Það er verkefni bæði ríkisins og sveitarfélaganna að sinna þessum hópi. Umboðsmaður er í svolítilli þröng hvað þetta varðar vegna þess að hlutverk hans varðandi greiðsluaðlögunina er fyrst og fremst að lækka skuldir. Það er náttúrlega full ástæða til að tryggja að fólk fái skuldir hreinsaðar af eins og mögulegt er. Þar hefur náðst verulegur árangur en útkoman er auðvitað dapurleg ef það dugir svo ekki til til að tryggja að fólk hafi húsnæði áfram og geti lifað með sómasamlegum hætti.

Menn hafa náttúrlega, þrátt fyrir þetta, horft til leigumarkaðarins og þeirra úrræða sem auðvitað er verið að vinna að og koma inn um áramótin. En það þarf líka að greina þennan hóp mun betur. Það er verið að vinna að því, og mér sýnist kannski fyrst og fremst vera um að ræða þann hóp sem hefur verið glímt við atvinnuleysi og er þess vegna með hvað lægstu tekjurnar. Atvinnuleysisbætur eru þrátt fyrir allt ekki nema 167 þús. kr. en lægstu bætur hjá einstaklingi sem býr einn eru 204 þús. kr. með almannatryggingum og örorkubótum. Það hefur líka sýnt sig að þeir sem hafa börn á framfæri, sérstaklega öryrkjarnir, hafa þokkalega afkomu, þ.e. það eru ekki aðallega þeir sem eru í þessum hópi heldur er þetta fyrst og fremst sá hópur sem býr við atvinnuleysi í augnablikinu.

Vinnan við þetta er að fara nákvæmlega yfir þessa greiningu. Rætt hefur verið við sveitarfélögin (Forseti hringir.) um hvernig við getum tekið á þessu og vonandi finnum við einhverja lausn á næstu vikum.