140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda.

[11:09]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, við þurfum að horfa jafnmikið á tekjuvandann og greiðsluvandann sem verið er að glíma við vegna þess að allt of mikill fókus hefur verið á að ræða bara skuldavandann. Margar leiðir koma til greina en kannski má segja að í fyrsta lagi þurfum við auðvitað að tryggja að þessi hópur fái vinnu. Við þurfum að koma honum í þannig aðstöðu að hann fái betri tekjur en hann hefur í dag og geti þar með framfleytt sér. Það er kannski eitt af stóru vandamálunum. Hér var hrópað utan úr sal að lækka skatta. Það hefur komið berlega í ljós núna í nýjum úttektum og nýjum tölum að þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattkerfinu hafa einmitt verið þessu lágtekjufólki helst til bóta þannig að það hefur virkað. (Gripið fram í.) Þeir sem kalla hér fram í eru að verja aðra hagsmuni en hagsmuni þessa hóps. Við þurfum þess vegna að halda áfram að vinna með sveitarfélögunum þannig að við höldum utan um þetta fólk og tryggjum að það lendi ekki á götunni.

Í mörgum tilfellum er betra að fólk búi áfram í húsunum sínum því að það borgar minna í afborganir en ef það færi á leigumarkaðinn (Forseti hringir.) við núverandi aðstæður. Við þurfum líka að tryggja að fólk missi ekki húsið og lendi á leigumarkaði sem hefur kannski enn meiri tilkostnað í för með sér, þrátt fyrir allt, en afborganir af húsnæði. Þetta er verkefni sem þarf að vinna og gott að velferðarnefndin vinnur að því og við vitum að þar hefur verið unnið mjög gott verk í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Við munum taka höndum saman með þeim eins og við mögulega getum til að finna lausnir á þessu.