140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

stuðningur við ríkisstjórnina o.fl.

[11:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við vitum öll að hér starfar meirihlutaríkisstjórn, við búum við þingræði og við vitum jafnframt að ríkisstjórnin á þessu kjörtímabili hefur stuðst við eins manns meiri hluta upp á síðkastið. Nú er okkur boðið upp á að horfa á hnútuköst milli forsætisráðherra og fyrrverandi ráðherra úr hinum stjórnarflokknum sem hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort hér sé í raun og veru meiri hluti fyrir ríkisstjórnarsamstarfinu eins og málum er háttað í dag. Því vil ég að forseti þingsins velti fyrir sér hvort ekki þurfi að fara að gera ráð fyrir sérstakri umræðu um það í störfum þingsins.

Þessi staða rifjar jafnframt upp að ríkisstjórnin leitaði eftir stuðningi frá Hreyfingunni rétt fyrir áramótin, óskaði eftir því að Hreyfingin verði ríkisstjórnina vantrausti. Í ljósi þess hversu mikla áherslu ríkisstjórnin leggur nú á að koma hugmyndum um (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu vegna stjórnarskrárinnar í gegnum þingið finnst mér mjög aðkallandi að forsætisráðherra greini frá því hvort ríkisstjórnin (Forseti hringir.) styðjist í raun við stuðning frá Hreyfingunni, að hún hafi lofað því að verja ríkisstjórnina vantrausti (Forseti hringir.) ef stjórnarskrármálið færi eins og Hreyfingin vill.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutíma undir liðnum um fundarstjórn, hann er ein mínúta.)