140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

stuðningur við ríkisstjórnina o.fl.

[11:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ástæða til að svara því sem hér kemur fram frá formanni Sjálfstæðisflokksins og sem maður hefur líka heyrt haldið fram í þessum umræðum síðustu daga, að ríkisstjórnin hafi lofað Hreyfingunni því að stjórnarskrárfrumvarpið færi í gegn ef hún styddi ríkisstjórnina. (Gripið fram í: Þetta er …) Þetta er rangt og ég ætla bara að leiðrétta það í eitt skipti fyrir öll. Það vill bara svo til að Hreyfingin styður stjórnarskrárfrumvarpið og stjórnarflokkarnir gera það líka, treysta þjóðinni til að taka þessi mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er annað og meira en Sjálfstæðisflokkurinn gerir. Þetta eru staðreyndir málsins, það eru engin loforð milli Hreyfingarinnar og stjórnarflokkanna um stuðning við ríkisstjórnina. Það er bara skynsemi sem ræður ferð hjá Hreyfingunni (Gripið fram í.) í þessu máli eins og ýmsum öðrum. Þau vilja að þetta mál komist í gegn og það vill svo til að hagsmunir okkar í því máli og hagsmunir Hreyfingarinnar fara saman.