140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil almennt segja að ég held að það sé ekki skynsamlegt að fara með slík mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í tillögum stjórnlagaráðsins hefur forsetinn áfram rétt til að skjóta slíkum samningum til þjóðarinnar. Ég hef mínar efasemdir um það ákvæði en það er þar. Við getum rætt á næsta þingi hvort meiri hluti þings vill eitthvað breyta því en ekki mun ég leggja það til.

Ég held að það verði alltaf ýmislegt í stjórnarskrá sem hver og einn er ekki hæstánægður með, það verður aldrei þannig. (Gripið fram í: Það á að vera sátt.) Þannig er það þegar ná þarf víðtækri sátt, eins og svo vinsælt er að tala um. (Gripið fram í.) Ég treysti mér til að lifa með því að fá ekki allt mitt fram.