140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:58]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Ég held að það sé afar nauðsynlegt að það sé víðtæk sátt meðal þingheims um þær spurningar sem eru lagðar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég kannast, virðulegi forseti, ekki við það að eitthvert samráð hafi verið haft um þessar spurningar. (Gripið fram í: Ekkert.) Að vísu þakka ég hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir þær breytingartillögur sem voru gerðar á nefndarfundi í gær. Þær eru allar til bóta og ég vil geta þess að ég styð ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu en ég er ekki ánægð með að spurningarnar sem verða lagðar fyrir þjóðina séu fyrst og fremst spurningar samdar af meiri hluta þingsins án þess að tekið sé tillit til annarra sjónarmiða hjá þingheimi. Ég skora enn og aftur á meiri hlutann að skoða vel hvort hann geti ekki samþykkt allar þær breytingartillögur sem búið er að leggja hér fram við spurningar (Forseti hringir.) hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.