140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Við erum að hefja hér 2. umr. um tillögu sem á margan hátt er mjög sérstæð og er einn af áhugaverðari en um leið undarlegri liðum í því ferli, ef hægt er að kalla það ferli, sem meiri hlutinn á þingi hefur sett upp um breytingar á stjórnarskrá. Meðan á þessari vegferð hefur staðið hafa oft verið teknar ákvarðanir um að breyta um kúrs með ýmsum hætti. Fyrir einhverjum mánuðum síðan var ekkert endilega ljóst að við yrðum í þessum sporum á þessum tíma. Þetta segi ég vegna þess að starfið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd miðaði lengi að því að áður en kæmi til ákvörðunar um þetta, hvort til dæmis ætti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á einhverju stigi, var ætlunin að láta fara fram á vegum nefndarinnar vinnu við að greina út frá stjórnskipulegum lagatæknilegum sjónarhóli hverju væri nauðsynlegt að breyta í tillögum stjórnlagaráðs. Lengi vetrar stóð ég í þeirri meiningu að ætlun meiri hluta nefndarinnar væri sú að vinna slíka vinnu áður en tekin yrði ákvörðun um hvort og þá hvenær efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Núna eftir áramótin varð einhver viðsnúningur í þessu. Það var ekki fyrr en í síðari hluta febrúar sem lá ljóst fyrir að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði hætt við að láta fara fram á tillögum stjórnlagaráðs það sem menn hafa stundum kalla álagspróf. Það er kannski ekki gott orð en lýsir þó með ákveðnum hætti því sem bjó að baki. Það var sem sagt horfið frá því og ákveðið að vísa tilteknum athugasemdum frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd aftur til stjórnlagaráðs með hugsanlega það að markmiði að gera einhverjar breytingar á tillögunum áður en farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um þetta má lesa í þingskjölum og þingtíðindum frá því í febrúar.

Eftir fund stjórnlagaráðs var ljóst að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlaði sér ekki að gera neinar breytingar áður en efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá birtist í síðustu viku sú tillaga sem hér er til umræðu. Út frá henni tölum við og verðum að taka afstöðu til nokkurra mismunandi þátta sem hana varða. Þetta eru nokkrar spurningar sem við þingmenn þurfum að spyrja okkur.

Í fyrsta lagi getur verið álitamál hvort og þá hvenær eigi að eiga sér stað þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá. Það getur verið álitamál, segi ég, við þurfum að taka afstöðu til þess.

Í annan stað þurfum við, ef við svörum fyrstu spurningunni með já-i, að taka afstöðu til þess hvenær rétti tímapunkturinn sé til þess að bera tillögur að breyttri stjórnarskrá undir þjóðina. Það er ekki alveg sjálfgefið hvenær það er.

Í þriðja lagi, ef við erum búin að komast að jákvæðri niðurstöðu varðandi fyrstu tvær spurningarnar sem ég nefndi, komum við að þriðja verkefninu sem er að móta hinar eiginlegu spurningar sem lagðar eru fram í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem um ræðir.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum í rauninni með allt þetta undir núna. Við þurfum að spyrja okkur hvort og þá hvenær sé rétt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að breyttri stjórnarskrá. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort rétt sé að það verði gert 30. júní eins og gert er ráð fyrir í tillögu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vek athygli á að sú dagsetning er ekki náttúrulögmál. Það er ekki náttúrulögmál að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram 30. júní og að það sé með einhverjum hætti girt fyrir það að hún eigi sér stað á öðrum tíma. Það er ákvörðun, ekki náttúrulögmál.

Í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu, ef til þess stendur vilji meiri hlutans á þingi, að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í ágúst, september eða október um tillögur stjórnlagaráðs eða einhverjar aðrar tillögur að breyttri stjórnarskrá. Raunar var því heldur ekkert til fyrirstöðu í október í fyrra þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk tillögur stjórnlagaráðs til meðferðar í formi skýrslu að leggja fram tillögu af því tagi sem hér liggur fyrir. Meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði getað tekið þá ákvörðun þegar á þeim tímapunkti að það væri rétt að setja þessar tillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá heyrðust reyndar raddir í þjóðfélaginu, m.a. frá nokkrum fyrrverandi meðlimum í stjórnlagaráði, um að rétt væri að gera það. Það var eitthvert hik á meiri hlutanum í þessum efnum. Meiri hlutinn taldi á þeim tíma, í haust, að það þyrfti einhver frekari vinna að eiga sér stað áður en efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Nú hefur tíminn liðið, fimm, sex mánuðir. Við höfum vissulega varið töluverðum tíma í nefndinni til að fjalla um þetta mál. Við höfum fengið á fundi nefndarinnar ýmsa sérfræðinga, en líka áhugamenn um viðfangsefnið. Við höfum heyrt þeirra sjónarmið. Afar margir, ég ætla ekki að fullyrða allir en afar margir, þeirra gesta sem til nefndarinnar hafa komið hafa verið þeirrar skoðunar að gera þyrfti talsverðar breytingar á tillögum stjórnlagaráðs áður en hægt væri að líta á það sem fullbúið plagg sem gæti orðið ný stjórnarskrá. Það má segja að afstaða gestanna hafi verið á mjög breiðum skala. Sumir töldu að það þyrfti að breyta fremur litlu, laga ákveðna þætti út frá lagatæknilegu sjónarmiði, lesa betur saman við alþjóðasamninga og eitthvað fleira þess háttar. Aðrir, m.a. fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar og raunar stjórnmálafræði líka, voru þeirrar skoðunar að það þyrfti að gera umtalsverðar breytingar áður en hægt yrði að líta á þetta sem tækan grunn að stjórnarskránni. Þannig er nú reynslan.

Það er þetta sem starfið í nefndinni hefur leitt í ljós en engu að síður, eftir nokkurra mánaða starf þar sem sjónarmið af þessu tagi hafa komið fram, hefur meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekið ákvörðun um að mæla með því við þingið að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs óbreyttar. Ég segi óbreyttar vegna þess að ekki er gert ráð fyrir því að farið verði inn í skjalið eða það neitt lagfært áður en efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það er verið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar hráar, en jafnframt sagt að auðvitað verði ýmsar breytingar gerðar eftir á.

Í upphaflegu tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var talað um að áður en frumvarpið yrði lagt fram yrði textinn samræmdur lögum og alþjóðlegum samningum sem Ísland er bundið af. Það var orðalag af einhverju slíku tagi sem getur þýtt býsna margt. Við þetta voru gerðar athugasemdir af hálfu landskjörstjórnar og fleiri aðila. Meiri hlutinn hefur nú tekið ákvörðun um að leggja til breytingartillögu þar sem þetta orðalag er lagfært upp að vissu marki (Gripið fram í: Til eftirbreytni.) sem er vissulega til eftirbreytni. (Gripið fram í: Já.) Ég ætlaði einmitt að koma að því að (Gripið fram í: Það er óþarfi að …) allt er það — ég er ekki að gera lítið úr því, hv. þingmaður. Ég gat þess einmitt sérstaklega að þessi breyting var til bóta. Þessi breyting var til bóta og ýmsar aðrar breytingar sem lagðar eru til eru til bóta, ég ætla ekki að draga úr því. Það breytir aftur á móti ekki því að enn liggur fyrir og enn er sú staða uppi að þjóðaratkvæðagreiðslan í sumar sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur til verður um plagg sem vilji manna hér í þinginu — ég þori að fullyrða flestra hér í þinginu — stendur til að breyta að meira eða minna leyti.

Þá spyr ég og vísa aftur til þeirra spurninga sem ég var að velta fyrir mér í upphafi: Er þetta tímabær atkvæðagreiðsla? Er tímabært að efna til atkvæðagreiðslu um tillögur sem þingið, nánast allt hygg ég, er sammála um að þurfi að breyta að meira eða minna leyti? Ég hygg að fáir hér í þinginu séu þeirrar skoðunar að það sé hægt að taka tillögur stjórnlagaráðs eins og þær eru og samþykkja þær óbreyttar sem nýja stjórnarskrá Íslands. Ég hygg að það séu fáir.

Það má segja að meginþátturinn í því nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir sé vangavelta um hvort menn vilji efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur til breyttrar stjórnarskrár. Þá er eðlilegra að það gerist þegar þingið hefur fjallað um málið, hefur komist að niðurstöðu fyrir sitt leyti um þau álitaefni sem helst eru uppi, þegar tillögurnar eru orðnar þokkalega endanlegar.

Nú er verið að leggja til atkvæðagreiðslu um plagg í miðju kafi. Vegna þess fyrirvara sem jafnvel tillöguflytjendur sjálfir gera um síðari breytingar er mjög erfitt að átta sig á hvað já þýðir og hvað nei. Felur já í sér stuðning við tillögurnar óbreyttar? Felur já í sér stuðning við eitthvað í breytingunum? Hvaða leiðsögn, skulum við segja, veita niðurstöður úr atkvæðagreiðslu sem fram fer á þessum tímapunkti? Ég hygg að sú leiðsögn verði óhjákvæmilega mjög takmörkuð. Þess vegna er það útgangspunktur í nefndaráliti okkar hv. þm. Ólafar Nordal að nú sé ekki tímabært að efna til þessarar atkvæðagreiðslu. Ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur er eðlilegra að gera það eftir málsmeðferð og vinnu af hálfu Alþingis þar sem tekist hefur verið á um og komist að niðurstöðu um álitaefni. Þannig yrðu þær tillögur sem yrðu bornar undir þjóðina að minnsta kosti sæmilega endanlegar og gæfu tiltölulega skýra mynd af því sem í samþykkinu eða synjuninni fælist.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lesa nefndarálit okkar hv. þm. Ólafar Nordal frá orði til orðs. Við áréttum í upphafi nokkur meginsjónarmið um þetta og teljum að tillögur að breyttri stjórnarskrá séu í miðju vinnsluferli og þess vegna sé bæði ómarkvisst og á vissan hátt villandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi. Við fjöllum í stuttu máli um forsögu málsins í nefndaráliti okkar og ætla ég ekki að rekja það efnislega hér heldur vísa til þingskjalsins. Við bendum þó á að með þeirri aðferð sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til er enn um sinn frestað því verki hér á Alþingi, sem ég hygg að einhvern tímann þurfi að fara í, að takast á við efnislegar breytingar að stjórnarskrá. (VBj: Næsta vetur.) Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir bendir á að það geti orðið næsta vetur. Það er allt gott um það að segja, það er hins vegar ljóst að vinna þingsins við að takast á við efnislegar breytingar mun ekki byrja fyrr en þá vegna þess að með þjóðaratkvæðagreiðslunni er verið að ýta á undan sér því stigi vinnunnar. (Gripið fram í: Gefa þessu tíma.) Það er óhjákvæmilegt.

Við rekjum í nefndaráliti okkar að við innan Sjálfstæðisflokksins höfum á undanförnum árum, ég mundi segja á undanförnum mánuðum með skipulegri hætti, unnið að tillögugerð sem við væntum þess að geta lagt fram áður en hin efnislega umræða á Alþingi hefst. Við erum nefnilega alltaf að tala um málsmeðferðina og form en á þeim þremur árum sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur verið við völd höfum við í þinginu fyrst og fremst tekist á um aðferð en ekki innihald í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Nóg um það.

Við boðum það í nefndaráliti okkar að slíkar tillögur muni koma fram af hálfu sjálfstæðismanna í þinginu þegar við tökumst á við efnislegt innihald stjórnarskrárinnar. Við minnum á að þegar liggur fyrir talsverður efniviður til að vinna úr í því sambandi. Við vísum til starfs stjórnarskrárnefnda fyrri ára, m.a. þeirrar nefndar sem starfaði 2005–2007 og kennd hefur verið við Jón Kristjánsson. Með þeirri nefnd starfaði reyndar ráðgjafarnefnd líka sem skilaði góðu verki. Við vísum líka til þjóðfundar sem haldinn var 2010 og mikillar og ítarlegrar skýrslu stjórnlaganefndar sem starfaði á vegum Alþingis 2010–2011. Og við getum þess um leið að í tillögum stjórnlagaráðs sem litu dagsins ljós í fyrrasumar er líka að finna margvíslegar tillögur og sjónarmið sem geta nýst vel í þeirri vinnu sem mun eiga sér stað um breytingar á stjórnarskrá þótt við tökum auðvitað fram að tilurð ráðsins með þeim hætti sem ákvarðanir voru teknar um á Alþingi er stórlega gagnrýnisverð og margar niðurstöður umdeilanlegar. Þá er engu að síður um það að ræða að á vettvangi stjórnlagaráðs fór fram mikil umræða um ýmsa þætti stjórnarskrárinnar og sú vinna er ekki glötuð. Hún liggur fyrir á prenti og getur nýst í vinnu í framhaldinu, hver svo sem afdrif þessa þingmáls verða. Þau eiga eftir að koma í ljós.

Ég er almennt þeirrar skoðunar, af því að ég reyni að nálgast málin frá jákvæðu sjónarhorni, að öll sú vinna sem lagt hefur verið í muni með einum eða öðrum hætti skila sér til framtíðar í bættum og betri tillögum að nýjum ákvæðum í stjórnarskrá Íslands. Það segi ég líka um tillögur stjórnlagaráðs þó að ég hafni því hins vegar að rígbinda mig við þær tillögur eins og þær komu fram, eins og sumir kunna að gera. Ég lít á þetta allt saman sem áhugavert og gagnlegt innlegg í umræðuna, efnivið sem ástæða er til að vinna úr.

Um þetta ætla ég ekki að hafa lengra mál að sinni heldur snúa mér þess í stað að þeirri spurningu sem lýtur að tímasetningunni.

Ég nefndi áðan að sú tillaga að tengja þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs forsetakosningum í sumar er svo langt frá því að vera náttúrulögmál. Það er einföld ákvörðun. Ýmsir aðrir valkostir eru í stöðunni jafnvel þótt menn gætu fallist á þá meginhugsun að efna bæri til þjóðaratkvæðagreiðslu einhvern tímann meðan á vinnsluferlinu stendur. Það er bara ákvörðun. Ég hef leyft mér að segja að þetta væri nánast eins og meinloka. Ákveðnir forustumenn í stjórnarflokkunum og kannski Hreyfingunni líka, a.m.k. í stjórnarflokkunum, festu sig fyrr í vetur við það með pólitískum yfirlýsingum að þjóðaratkvæðagreiðslan þyrfti að fara fram samhliða forsetakosningum. Svo virðast menn bara fastir í því fari og það er orðinn einhver útgangspunktur sem á að ráða öllu í sambandi við framgang og umræður um þetta mál. Það er að mínu mati sú meinloka sem ræður því að það er svona mikil taugaveiklun í sambandi við afgreiðslu þessa máls núna. Það er ekkert sem varðar málið sjálft, ekkert sem varðar vönduð vinnubrögð við breytingar á stjórnarskrá eða neitt svoleiðis. Það er bara það að tilteknir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar kunna að líta svo á að þeir séu búnir að festa sig í einhverjum yfirlýsingum um þessi efni.

Nú ætla ég að geta þess og vísa í nefndarálit okkar um það að það geta, svo allrar sanngirni sé gætt, verið bæði kostir og gallar við að efna til kosningar af þessu tagi samhliða forsetakosningum. Við hv. þm. Ólöf Nordal rekjum ýmsa þætti í þessu sambandi í nefndaráliti okkar. Við bendum á í upphafi, eins og ég hef gert nú þegar, að það geti verið ómarkvisst og villandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar tillögurnar eru ekki tilbúnar. Það mælir gegn þeim stutta tíma sem er fram að þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Við bendum líka á að það megi efast um að heppilegt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum vegna þess að áhætta geti verið fólgin í því að blanda saman tvenns konar kosningum sem í eðli sínu eru ólíkar. Það er hætt við að umræða og kynning í aðdraganda kosninganna blandist saman með ýmsum hætti og verði ómarkvissari og ruglingslegri en ella. Athygli kjósenda og fjölmiðla dreifist óhjákvæmilega við þetta. Það getur enginn gert sér grein fyrir því á þessari stundu hver áhrifin eða afleiðingarnar verða. Menn vita það einfaldlega ekki með neinni vissu. Þjóðaratkvæðagreiðsla um risavaxið mál samhliða forsetakosningum er nýmæli hér sem við höfum ekki forsendur til að meta hvernig mun koma út í reynd.

Við vekjum líka athygli á því að miðað við daginn í dag er tiltölulega skammur tími til forsetakosninganna sem gerir það auðvitað að verkum að svigrúmið til umræðu og kynningar og þess háttar verður minna en ella. Það er óhjákvæmilegt, það er einfaldlega staðreynd.

Við nefnum líka sem rök gegn því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum að það skapar ákveðið flækjustig í sambandi við framkvæmd. Það kallar á meiri viðbúnað á kjörstöðum, það kallar á fleira starfsfólk, bæði í kjördeildum og talningu. Það leiðir til að kosningaathöfn verður seinlegri og svo margt má nefna í því sambandi. Einnig hefur verið vakin athygli á því að þar sem meðferð kærumála er ólík annars vegar eftir lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur og hins vegar eftir lögum um forsetakosningar geti skapast óvissa út af kærumálum sem kunna að stafa af einhverjum atburðum eða aðstæðum á kjörstað. Það vitum við ekki og sérfræðingar geta ekki svarað okkur hvernig það nákvæmlega kemur út.

Við nefnum það í áliti okkar að sennilega séu þetta leysanleg viðfangsefni og vandamál sem um er að ræða. Engu að síður eru þetta sjónarmið sem þarf að hafa í huga.

Svo ég geti fyrir sanngirni sakir þeirra röksemda sem helst hafa verið færðar fram fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi sér stað samhliða forsetakosningum er annars vegar fjárhagslegi þátturinn og hins vegar sá þáttur að þetta kunni að auka kjörsókn. Við vekjum athygli á þeim upplýsingum sem komu frá innanríkisráðuneytinu og eru sambærilegar við það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gat um áðan. Eins og hún gat líka um eru óvissuþættirnir margir. Á þessu stigi er fyrst og fremst um lauslegar áætlanir að ræða. Það er samt ekki ástæða til að efast um að með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og forsetakosningar samhliða muni sparast peningur. (Gripið fram í: Nei.) Það munu sparast talsverðir peningar, það er ekki vafamál, en hvort sú upphæð verður 150 milljónir, 170 milljónir eða annað þegar upp er staðið getum við ekki svarað á þessari stundu. Þeir sem hafa komið fyrir nefndina hafa ekki getað svarað því með vissu þó að þeir hafi komið með lauslegar áætlanir sem eru kannski það sem við verðum að horfa á. En svo allrar sanngirni sé gætt er rétt að segja að peningar mundu sparast með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Það er þá sparnaður ef menn á annað borð eru þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu stigi sé nauðsynleg. Eins og ég er áður búinn að fara yfir er það ekki endilega nauðsynlegur eða óhjákvæmilegur útgangspunktur, alls ekki.

Það hafa líka verið nefnd sjónarmið um að tvenns konar kosningar sem fara fram samhliða geti aukið kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur vel verið að það sé líka rétt. Þegar horft er á kjörsóknina í stjórnlagaþingskosningunum sem efnt var til haustið 2010 þar sem kjörsókn var sögulega í lágmarki í landi þar sem kosningaþátttaka er að jafnaði 75%, 85% eða 90% var kosningaþátttaka 35%. Það getur vel verið að með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum sé hægt að fá fleira fólk á kjörstað. Ég varpa hins vegar fram þeirri spurningu hvað það segi um þá trú manna á að þjóðin hafi mikinn áhuga á að eiga aðkomu að stjórnarskrárbreytingum sem hér er gengið út frá. (Gripið fram í.) Tveir þriðju þjóðarinnar sáu ekki ástæðu til að kjósa til stjórnlagaþings haustið 2010. Fyrir því kunna að vera margvíslegar ástæður en það varð niðurstaðan. Þess vegna er það auðvitað röksemd í málinu að með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum megi lyfta upp kjörsókninni. Það er sjónarmið.

Þegar við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, vegum og metum þessi sjónarmið erum við þeirrar skoðunar að þeir gallar sem eru á því að efna til kosninganna samhliða vegi þyngra þótt við föllumst auðvitað á að fyrir annarri niðurstöðu séu ákveðin rök. Okkur finnst bara vandamálin vega þyngra en kostirnir þegar upp er staðið.

Ég ætla að skauta hratt yfir það sem eftir er af nefndarálitinu enda tíminn mjög knappur í þessari umræðu. Ég kem kannski nánar inn á aðra þætti síðar og verð að vísa til dæmis til þess að ég mun ræða breytingartillögur okkar hv. þm. Ólafar Nordal síðar. Þær liggja nú frammi í þingskjölum.

Vegna ummæla hv. þm. Magnúsar Orra Schrams áðan bendi ég á að í nefndarálitinu segjum við að meginafstaða okkar sé sú að ekki eigi að fara áfram með þetta mál, það eigi ekki að samþykkja það í þeim búningi sem það er í. Við segjum hins vegar: Ef niðurstaða meiri hluta þingsins verður sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, skoðanakannana eða hvernig sem menn nálgast þá orðræðu teljum við að það séu þó nokkrar spurningar sem eðlilegt væri að spyrja meðfram sem eru ekki síður áhugaverðar eða umdeildar en þær sem meiri hlutinn stingur upp á. Þess vegna leggjum við það inn í umræðuna og höfum raunar gert á nokkrum fundum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Flest þau atriði sem við gerum breytingartillögur um hafa verið rædd eða kynnt af okkar hálfu eða að minnsta kosti greint frá því á fyrri fundum að við værum að hugleiða að flytja slíkar breytingartillögur.

Eins og ég segi verð ég að ljúka máli mínu von bráðar, en ég vísa til nefndarálitsins um að þrátt fyrir að breytingartillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar séu til bóta svo langt sem þær ná (Forseti hringir.) er framsetningin enn með þeim hætti að niðurstöðurnar eru túlkanlegar og hætt er við að kjósendur túlki spurningarnar eða orðalag þeirra á mjög mismunandi hátt.