140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek nefnilega eftir því að komin er fram breytingartillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem brugðist er við þeirri spurningu sem hv. þm. Birgir Ármannsson varpaði svo oft fram í nefndinni um hvað þeir eigi að gera sem vilja breyta stjórnarskránni sem nú er í gildi en hafa ekki valkosti um það í því þingskjali sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram. Þar eru bara ákvæði um það hvort viðkomandi vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Ég fagna því þessari breytingartillögu því að meiri hluti nefndarinnar sinnti þessu ekki og það hefði jafnvel orðið til þess að nei-ið hefði orðið langtum stærra varðandi tillögu stjórnlagaráðs.

Nú hefur núverandi ríkisstjórn farið í gegnum tvær þjóðaratkvæðagreiðslur sem voru bindandi samkvæmt stjórnarskrá. Telur þingmaðurinn að ríkisstjórnin þurfi að hugsa sinn gang, (Forseti hringir.) verði tillögur stjórnlagaráðs felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eða kemur ríkisstjórnin til með að hanga áfram á þrjóskunni einni?