140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að reyna að svara því í stuttu máli hvað þurfi að koma til til þess að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og eftir atvikum aðrir þingmenn komist að sameiginlegum niðurstöðum og sameiginlegum skilningi skulum við alla vega segja, án þess að leggja frekari dóm á það, að það sé töluvert langt í land í þeim efnum, hygg ég.

Varðandi vinnuna í nefndinni hafa fjöldamargir fundir verið haldnir um tillögur stjórnlagaráðs, það er rétt að halda því til haga. Flestir þeirra funda hafa verið með þeim hætti að til nefndarinnar hafa komið gestir sem hafa tjáð sig um ýmist tillögurnar í heild eða einstaka kafla þeirra. Mér er óhætt að segja að flestir ef ekki allir þeir fræðimenn sem um þetta hafa fjallað hafa haft meiri og minni athugasemdir við tillögurnar. Ég nefndi áðan að í því væru auðvitað blæbrigði. (Forseti hringir.) Sumir gera mjög miklar athugasemdir, aðrir minni, en allir hafa einhverjar athugasemdir. (Forseti hringir.) Ég held að það sé þokkalega sanngjörn lýsing á málinu.