140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um áhrif atkvæðagreiðslunnar á forsetakosningarnar og hvernig þær komi til með að virka saman. Samkvæmt tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á að vera ómögulegt að gera atkvæðaseðil ógildan, því að þótt einhverjir krossar séu hér og þar á atkvæðaseðli á hann að vera gildur seðill. Það eitt er mjög einkennilegt. Það getur til dæmis orðið þannig að 80% mundu greiða atkvæði með eða á móti tillögu minni en kannski bara 20% með tillögu stjórnlagaráðs. Það er vegna eðlis málsins því að Evrópusambandsumsókn er langtum heitari.

Varðandi það að greiða atkvæði samhliða forsetakosningum þá hef ég lagt gríðarlega áherslu á það í nefndinni að fullkominn aðskilnaður verði á milli þessara kosninga því að skilin þarna á milli eru mjög óljós og það gilda mismunandi kæruleiðir um kosningarnar ef vafi er um gildi þeirra. Þess vegna legg ég á það mikla áherslu að ef tillögur meiri hlutans ná fram að ganga og hér verður þjóðaratkvæðagreiðsla, að verði þær dæmdar ógildar af Hæstarétti ógildast forsetakosningarnar ekki.

Tæpast verður hægt að aðskilja umræður um þessi málefni ef kosningar og atkvæðagreiðsla fara fram samhliða því að væntanleg forsetaefni verða að sjálfsögðu spurð út í tillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. En mér finnst ansi langt seilst í túlkun ríkisstjórnarflokkanna, eins og hún hefur komið fram í mörgum frumvörpum eftir að stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum, nú síðast í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu eins og ég benti á í gær. Ríkisstjórnin er farin að sækja sér rökstuðning í lagafrumvörpum í tillögur stjórnlagaráðs sem hafa ekkert lagalegt gildi nokkurs staðar. Það eitt sýnir hvað ríkisstjórnin er komin langt á undan sér.

Varðandi hvort forseti, hver sem kosinn verður, geti beitt málskotsrétti sínum á stjórnarskipunarlög sem eru sett í trássi við Alþingi, því að við eigum að vinna að breytingum á stjórnarskrá í samvinnu en ekki í ófriði, kemur auðvitað til greina að sá forseti geri það.