140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er nú svo gáttuð á þessum orðum hv. síðasta ræðumanns því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vissi ekki meira um málið en svo þann sama dag og fésbókarfærslan var sett inn að hún fór með ósannindi úr ræðustól og laug beinlínis upp á mig sem þingmann og það gerði líka hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Þar héldu þær því fram að ég hefði nafngreint einstaklinga á þessum tíma, sem er bara alls ekki rétt enda hefur málið farið sinn feril. Búið er að sanna að í færslunni var hvergi nafngreindur einstaklingur, þar var ekki um trúnaðarupplýsingar að ræða, hún fór inn á vefinn 20 mínútum eftir að gestirnir voru farnir og það vissi enginn hvort verið væri að vísa í sjálfa nefndarmenn eða þá gesti sem komu fyrir nefndina því að þetta var algerlega nafnlaust og einfaldlega skoðun mín, upplifun mín á fundinum. (Forseti hringir.) En ég sé að það er allt að verða vitlaust í þingsal, frú forseti, og ég ætla að fara að fá mér kaffi og setjast niður í þingflokksherbergi.